Sagt er að nýju sjávarútvegsfrumvörpunum sé ætlað að stuðla að nýliðun í sjávarútvegi. Það er göfugt markmið. Því miður verða áhrif frumvarpanna alveg hin gagnstæðu, verði þau að lögum. Þau munu síst auka nýliðun og það sem verra er: þau munu fyrst af öllu fella þá sem nýjastir eru núna í sjávarútveginum og kollvarpa útgerð þeirra.
Það má því segja að þeir sem nýir muni mögulega koma inn í sjávarútveginn komi þá í stað þeirra nýliða sem þar starfa núna. Það getur ekki verið ætlunin.
Sannleikurinn er sá að býsna margir hafa haslað sér völl í sjávarútvegi á síðustu árum. Þar hefur því síst orðið minni nýliðun en í öðrum atvinnugreinum. Þessir menn hafa skuldsett sig, keypt sér báta, fiskverkanir og fiskveiðiréttindi, kvóta. Þetta hafa þeir gert á grundvelli gildandi laga og í góðri trú. Fyrir þeim hefur vakað að afla sér lífsviðurværis og byggja upp lífvænlegan atvinnurekstur. Þannig hafa þeir unnið byggðarlögum sínum mikið gagn og skapað atvinnutækifæri í mörgum smáum sjávarútvegsbyggðum um land allt.
Vegið að grundvellinum
Í frumvörpum ríkisstjórnarinnar er að finna margvísleg ákvæði sem vega algjörlega að grundvelli þessa atvinnureksturs. Sem sagt að nýliðunum í sjávarútveginum. Það má nefna að ætlunin er að koma í veg fyrir að fyrirséð aukning í þorskveiðiheimildum gangi til þeirra sem hafa fiskveiðirétt í þorski, nema að hluta. Bannað verður að leigja aflaheimildir úr aflamarkskerfinu í krókaflamarkskerfi, sem hefur þó verið forsenda útgerðar á minni stöðum víða um land. Breytingar frá gildandi lögum varðandi framlög í leigu og byggðapotta. Þá má nefna 3% regluna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sem er fyrirsjáanleg aðgangstakmörkun og mætti svo áfram telja.En síðast en ekki síst er sú gríðarlega mikla hækkun veiðigjaldsins, sem frumvörpin boða.
Leggja upp laupana, komast í þrot
Veiðigjaldið er reiknað sem hlutfall af framlegð fyrirtækja í sjávarútvegi í heild. Það er að segja það sem eftir stendur þegar búið er að borga fyrir allan almennan rekstur og áður en farið er að greiða fjármagnsliði, afborgarnir, vexti og þess háttar. Ekki er tekið tillit til skuldastöðu fyrirtækjanna. Þess vegna er það ljóst að þau fyrirtæki sem eru nýjust, þar sem einstaklingar og félög þeirra eiga hlut að máli, verða mjög hart úti. Þau skulda, eðli málsins samkvæmt, almennt meira en hin rótgrónari. Þau munu því ekki rísa undir þessum nýju klyfjum í formi hærra veiðigjalds. Þessar útgerðir – nýliðarnir – verða því fyrstu fórnarlömb sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þær leggja upp laupana fyrst, komast í þrot og hætta starfsemi.Þetta mun fyrirsjáanlega bitna mjög hart á hinum minni sjávarbyggðum. Aðrar útgerðir og aðrar byggðir fara svo sömu leið, þótt síðar verði, ef veiðigjaldið á að þurrka upp allan hagnað greinarinnar, eins og sýnt hefur verið fram á.
Þessar aðstæður ættu að vera skiljanlegar öllum. Ef skuldirnar eru miklar, þá þurfa þeir sem þær bera, hvort sem það eru einstaklingar eða lögaðilar, á öllum sínum tekjum að halda til þess að rísa undir þeim. Afraksturinn fer í að standa undir rekstrinum, borga laun og aðföng og greiða af fjárhagsskuldbindingum sínum. Það geta þessar útgerðir almennt í dag. Frekari álögur verða þeim hins vegar strax ofviða.
Blóðtaka sjávarbyggðanna
Þetta eru almennt talað fyrirtæki þar sem menn hafa lagt alveg gríðarlega hart að sér. Róið stíft, byggt upp góða atvinnu í heimabyggðum sínum, gætt aðhalds við reksturinn og lagt sig fram um að hámarka tekjur og halda útgjöldum í skefjum. Ég fullyrði það af kynnum mínum af þessum útgerðarháttum, sem ég hef haft góða aðstöðu til þess að fylgjast með undanfarin ár, að ekki er almennt hægt að standa betur að málum en gert hefur verið. Það yrði því hryllileg blóðtaka fyrir íslenskan sjávarútveg, sjávarbyggðirnar og í raun samfélagið allt, ef þessar útgerðir yrðu að velli lagðar vegna vanhugsaðra pólitískra ákvarðana.Það getur ekki hafa verið ætlunin, eða hvað? Eru það virkilega þessar útgerðir sem menn vilja fyrst losna við úr sjávarútveginum okkar?
Höfundur er alþingismaður.