MS Byggja á stóra birgða- og dreifistöð í húsnæði félagsins á Bitruhálsi.
MS Byggja á stóra birgða- og dreifistöð í húsnæði félagsins á Bitruhálsi. — Morgunblaðið/Kristinn
Mjólkursamsalan (MS), sem er afurðafyrirtæki í eigu íslenskra kúabænda, hyggst á næstu mánuðum ráðast í 1,5 til 2 milljarða fjárfestingar og breytingar á skipulagi í stærstu afurðastöðvum sínum.

Mjólkursamsalan (MS), sem er afurðafyrirtæki í eigu íslenskra kúabænda, hyggst á næstu mánuðum ráðast í 1,5 til 2 milljarða fjárfestingar og breytingar á skipulagi í stærstu afurðastöðvum sínum. Fram kemur í fréttatilkynningu að markmiðið sé að ná fram frekari hagræðingu, sem ætlað er að skili sér í vöruverði til neytenda og hráefnisverði til bænda, auk þess að skapa nýja möguleika til að flytja út skyr, osta og mysuafurðir.

Gert er ráð fyrir að endurnýja og stækka ostaframleiðslu á Akureyri, endurnýja framleiðslu á sýrðum mjólkurvörum á Selfossi, færa saman á Selfossi mjólkurpökkun sem hefur verið þar og í Reykjavík og endurnýja ostapökkun í Reykjavík og byggja þar upp stóra birgða- og dreifistöð.

Í tilkynningu er haft eftir Einari Sigurðssyni, forstjóra félagsins, að Mjólkursamsalan hafi „á undanförnum árum náð umtalsverðum árangri í hagræðingu og sparnaði. Kostnaður við söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurafurða hefur verið lækkaður um 2 milljarða króna á ársgrunni. Þessi ávinningur hefur átt mestan þátt í að halda hér niðri verði mjólkurvara á sama tíma og eldsneytisverð, orkuverð, erlend aðföng og hráefnisverð til bænda hefur hækkað verulega.“

Með því að setja nýjar mjólkurpökkunarvélar niður á Selfossi skapast möguleikar til að byggja upp stóra birgða- og dreifistöð í núverandi húsnæði félagsins á Bitruhálsi.

Markmið félagsins er að þessum breytingum verði lokið fyrir mitt ár 2013. Gert er ráð fyrir að breytingarnar í starfseminni leiði til þess að á nokkrum misserum verði fækkun í starfsliði Mjólkursamsölunnar, sem mest kemur fram í Reykjavík.