Heimir Snær Guðmundsson
heimirs@mbl.is
Póst- og fjarskiptastofnun hefur hafnað kröfu Þjóðleikhússins um að ógilda samkomulag milli JÁ og Borgarleikhússins í tengslum við útgáfu símaskrárinnar. Þjóðleikhúsið taldi að í samkomulaginu fælist markaðslegt ranglæti með því veita Borgarleikhúsinu aðgang að símaskránni og einnig bæri að skoða hvort reglur og lög stæðust í öllum tilfellum.
Í ákvörðun sinni kemst PFS að þeirri niðurstöðu að öllum lögum og reglum hafi verið fylgt. Í ákvörðun PFS segir að Þjóðleikhúsið kvarti yfir ákvörðun JÁ um að fara í samstarf við Borgarleikhúsið, með því sé aðila á leikhúsmarkaði veitt samkeppnisforskot. Samkvæmt ákvörðun PFS þá eru afskipti af daglegum rekstri fjarskiptafyrirtækja, t.d. markaðsstarfsemi, ekki hlutverk stofnunarinnar. Auk þess segir í ákvörðuninni að engar reglur eða kröfur séu settar upp um gæði útgáfu símaskrár varðandi prentun eða markaðssetningu. Að lokum kemur fram í ákvörðuninni að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að JÁ hafi ekki uppfyllt þær skyldur sem fyrirtækið hefur samkvæmt alþjónustuútnefningu.
Aðspurður segir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins, kvörtun Þjóðleikhússins hafa komið á óvart. „Okkur þótti ánægjulegt að ákveðið hefði verið að í símaskránni 2012 væri sjónum beint að leiklistinni. Okkur þótti viðblasandi að slíkt væri jákvætt fyrir allar sviðslistir í landinu. Það kom því á óvart að Þjóðleikhúsið kysi að vinna gegn þessu jákvæða samstarfi. Auk þess vekur það athygli að Þjóðleikhúsið telji að þetta samstarf skekki samkeppnisstöðu á leikhúsmarkaði þegar Þjóðleikhúsið hlýtur mun hærri opinbera styrki en aðrir aðilar á íslenskum leikhúsmarkaði.“
Samkomulag JÁ og Borgarleikhússins felur í sér að Borgarleikhúsið stýrir myndskreytingu forsíðu skrárinnar og ritstýrir öðrum efnisþáttum hennar. „Við kusum að halda Borgarleikhúsinu sem slíku í aukahlutverki en beina kastljósinu að leiklist í landinu og þeim áhrifum sem hún hefur á þjóðina og samfélagið.“
Framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins vildi ekki tjá sig um málið.
KVARTANIR ÞJÓÐLEIKHÚSSINS
Öllu hafnað af PFS
» Þjóðleikhúsið spurði hvort álitið væri að PFS væri hæft til að fjalla um þann samning sem stofnunin hafi gert við JÁ. PFS áleit svo og vísaði í 10.gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun.» JÁ getur talist sem fjarskiptafyrirtæki, sbr. lög um fjarskipti, segir í ákvörðun PFS.
» Kröfu Þjóðleikhússins um afturköllun PFS á útnefningu alþjónustuskyldu JÁ var hafnað.
» Kröfu Þjóðleikhússins um ógildingu samkomulags JÁ og Borgarleikhússins var hafnað.
» Ákvörðun PFS er kæranleg til úrskurðarnefndar fjarskipta og póstmála.