Davíð Þorláksson
Davíð Þorláksson
Eftir Davíð Þorláksson: "Um leið og vinstrimenn fá sínu framgengt og þeir sem sá uppskera ekki þá hætta menn til lengri tíma að sjá hag sinn í því að leggja eitthvað af mörkum"

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs-, landbúnaðar, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða. Frumvarpið gerir ráð fyrir að allar aflaheimildir verði þjóðnýttar af eigendum þeirra og að þeim verði síðan úthlutað eins og stjórnmálamönnum á hverjum tíma þóknast. Ofan á þetta bætist svo skattlagning sem virðist taka nánast alla arðsemi úr greininni að mati óháðra sérfræðinga sem hafa skoðað málið.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifaði pistil á heimasíðu sína þar sem hann samsamar sjálfan sig þjóðinni og líkir útveginum við leigjanda sem neitar að borga leigu. Það þarf ekki að kafa mjög djúpt í þessa líkingu hans til að sjá að hún er fjarstæðukennd. Sigmundur áttar sig ekki á að það var hvorki hann sem keypti eða byggði húsið, heldur sá aðili sem hann kallar leigjandann .

Þegar kvótakerfinu var fyrst komið á var gætt að atvinnuréttindum þeirra sem voru í greininni með því að úthluta kvótanum, sem til varð, til þeirra. Úthlutun kvótans var því ekkert annað en skilgreining á réttindum sem þegar voru til staðar. Það var auðvitað eina sanngjarna leiðin til að úthluta þeim gæðum, sem óhjákvæmilega verða til þegar slíkum kerfum er komið á, til þeirra sem hafa fjárfest og byggt upp atvinnu í greininni. Af hverju ættu slíkar eignir að vera veittar mér eða Sigmundi, mönnum sem hafa ekkert með sjávarútveg að gera, eða jafnvel einhverjum sem hafa selt sig út úr greininni – eins og frumvarp Steingríms gerir ráð fyrir?

Ekki er nóg með að upphafleg úthlutun hafi verið eina eðlilega leiðin til að koma kerfinu á heldur hefur ýmislegt gengið á síðan. Athuganir sýna að 87,5% kvótans hafa skipt um eigendur frá því að honum var fyrst úthlutað. Þessir aðilar tapa því fé sem þeir hafa lagt í þessar fjárfestingar og sitja uppi með skuldir sem stofnað hefur verið til vegna þeirra.

Vilji menn finna einhverja líkingu sem á við þessar aðstæður þá þurfa menn ekki að leita lengra en í sögu sem hvert einasta barn las í skóla. Það var litla gula hænan sem fann fræið, sáði því, sló hveitigrasið, þreskti hveitið, malaði hveitið og bakaði brauðið. Svínið, kötturinn og hundurinn vildu ekki gera neitt af þessu, heldur bara borða brauðið. Nú er því engu líkara en að vinstristjórnin ætli að setja sig í hlutverk svínsins, kattarins og hundsins með því að gæða sér á brauðinu sem litla gula hænan hefur bakað.

Að sama skapi vilja vinstrimenn núna að ríkið fái til sín allan arðinn af þeirri uppbyggingu og fjárfestingu sem sjávarútvegurinn hefur lagt í síðustu áratugina. Samt var það sjávarútvegurinn, en ekki ríkið, sem tók áhættu og fjárfesti í þekkingu, skipum, veiðarfærum, fiskvinnsluhúsum, tækjum o.s.frv. Um leið og vinstrimenn fá sínu framgengt og þeir sem sá uppskera ekki þá hætta menn til lengri tíma að sjá hag sinn í því að leggja eitthvað af mörkum og allir tapa. Að standa vörð um það að menn fái að njóta ávaxtar erfiðis síns er alls ekki sérhagsmunagæsla, heldur þvert á móti snýst sú viðleitni um að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar.

Höfundur er lögmaður og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Höf.: Davíð Þorláksson