Formaður Steingrímur J. Sigfússon
Formaður Steingrímur J. Sigfússon — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Hansen skulih@mbl.is „Í fyrsta lagi þá geri ég engar athugasemdir við að við svörum þessu erindi eins og okkar málsvarnarteymi leggur til og er sammála um,“ segir Steingrímur J.

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

„Í fyrsta lagi þá geri ég engar athugasemdir við að við svörum þessu erindi eins og okkar málsvarnarteymi leggur til og er sammála um,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra og formaður VG, um aðkomu ESB að Icesave-málinu. Að sögn Steingríms kemur afstaða ESB í málinu honum ekki á óvart enda hafi hún legið fyrir. „Það kemur heldur ekki á óvart að þeir blandi sér inn í málið, það var bara spurning um á hvaða formi það yrði,“ segir Steingrímur og bætir við: „Þar með er orðin staðreynd að við mætum framkvæmdastjórn ESB sem andstæðingi í þessu máli og það er auðvitað pólitískur veruleiki sem þá liggur fyrir og er engin leið að útiloka að hafi sín áhrif.“ Spurður hvaða pólitísku afleiðingar þetta mál muni hafa og hvort það gefi tilefni til þess að endurskoða aðildarviðræðurnar segir Steingrímur: „Þetta mál er pólitískur raunveruleiki sem við stöndum núna frammi fyrir og tökumst á við, ég ætla á þessu stigi mála ekki að vera með nein stór orð um það hvað þetta eigi að þýða.“ Að sögn Steingríms hefur þetta óhjákvæmilega áhrif á andrúmsloftið í þessum samskiptum.

Ekki ásetningur um leynd

„Menn hafa vandað sig alveg sérstaklega við að skapa sem mesta samstöðu um það hvernig við héldum á okkar málsvörn og málsvarnarteymið var þannig samansett að höfðu mjög víðtæku samráði við stjórnarandstöðu, hreyfingar og hópa sem hafa látið sig þetta varða og þeir eiga sína aðild að því,“ segir Steingrímur, aðspurður hvort ekki sé alvarlegt mál að utanríkisráðherra hafi láðst að láta þingheim vita af málinu, og bætir við: „Þannig að ég er algjörlega sannfærður um að það var ekki ásetningur eins eða neins að halda einhverjum upplýsingum frá mönnum, enda hafa þær í sjálfu sér legið fyrir gagnvart þeim sem hafa fylgst með málinu.“ Að sögn Steingríms má segja að það sé óheppilegt ef menn upplifa það sem svo að þeir fái stuttan tíma til að undirbúa sig undir að svara erindinu en það liggi algjörlega í því hvernig þetta mál hefur verið undirbúið að menn hafa verið að reyna að hafa sem breiðasta samstöðu um það. „Ég vek nú athygli á því, sem skiptir ekki litlu máli í þessu, að málsvarnarhópurinn er sammála, kemst að sameiginlegri niðurstöðu, sameiginlegum viðbrögðum og sameiginlegum svörum.“

ÁSTÆÐA TIL AÐ ENDURSKOÐA AÐILDARFERLIÐ

„Fáheyrð ósvífni“

„Við vorum mjög á einu máli um að þetta væri fáheyrð ósvífni,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, spurður út í þingflokksfund VG sem fram fór í hádeginu í gær en þar var Icesave-málið m.a. til umræðu. Hann segir að halda verði því aðskildu sem er lagatæknilegs eðlis og því sem er pólitísks eðlis. „Mér finnst full ástæða til þess að setjast yfir endurskoðun á þessu viðræðuferli öllu,“ segir Ögmundur og bætir við: „Þetta er enn einn steinninn í þann vegg og ástæða til þess að taka málið upp.“ Spurður út í pólitískar afleiðingar málsins segir Ögmundur þetta munu án efa hafa áhrif á afstöðu Íslendinga almennt til ESB.