Glaðir Eftir að samningar voru undirritaðir hjá Norðlenska. Frá vinstri: Hörður Fannar Sigþórsson, Sævar Árnason, Bjarni Fritzson, Hannes Karlsson, formaður Akureyrar – handboltafélags, Heimir Örn Árnason og Sveinbjörn Pétursson.
Glaðir Eftir að samningar voru undirritaðir hjá Norðlenska. Frá vinstri: Hörður Fannar Sigþórsson, Sævar Árnason, Bjarni Fritzson, Hannes Karlsson, formaður Akureyrar – handboltafélags, Heimir Örn Árnason og Sveinbjörn Pétursson. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Heimir Örn Árnason og Bjarni Fritzson taka í sumar við þjálfun Akureyrarliðsins í handbolta þegar Atli Hilmarsson lætur af störfum.

Handbolti

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Heimir Örn Árnason og Bjarni Fritzson taka í sumar við þjálfun Akureyrarliðsins í handbolta þegar Atli Hilmarsson lætur af störfum. Þeir hafa verið burðarásar í liðinu síðustu árin og leika báðir áfram með, auk þess að þjálfa. Sævar Árnason verður áfram aðstoðarþjálfari. Gengið var frá samningum til tveggja ára í gær og jafnframt samið til eins árs við tvo leikmenn, Hörð Fannar Sigþórsson línumann og varnarjaxl og Sveinbjörn Pétursson, markvörð, sem einnig hafa leikið stór hlutverk.

Svipaðar skoðanir

„Það kom okkur skemmtilega á óvart, þegar við bárum saman bækur okkar, hve skoðanir okkar eru svipaðar; hvernig við sjáum framtíð liðsins fyrir okkur,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið að loknum blaðamannafundi í höfuðstöðvum Norðlenska í gær, en fyrirtækið er einn helsti bakhjarl Akureyrar – handboltafélags.

Heimir og Bjarni sögðu báðir að ekki hefði verið sjálfsagt mál frá fyrstu stundu að taka verkefnið að sér. „Við ræddum þetta í dálítinn tíma; þetta er mjög stór ákvörðun og fyrst urðum við að komast að því hvort forsendur væru fyrir því að gætum unnið saman að verkefninu og hvort við værum tilbúnir að vera spilandi þjálfarar,“ sagði Bjarni.

Undanúrslit Íslandsmótsins hefjast í næstu viku en þar mæta Akureyringar liði FH-inga; reikna má með mikilli baráttu félaganna, sem mættust einmitt í úrslitarimmu um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. Hvorki Bjarni né Heimir telja það trufla undirbúning liðsins að tilkynnt sé um þjálfara áður en keppnistímabilinu lýkur.

Óvissu eytt

„Þetta truflar mig ekki neitt. Það var vitað að Atli myndi hætta og farið að kvisast út hverjir tækju hugsanlega við og því best að klára málið,“ sagði Bjarni. Báðir sögðu gott að óvissu um framhaldið væri eytt. Heimir sagði mikilvægt að allir gætu nú einbeitt sér að úrslitakeppninni, þjálfaraferill þeirra Bjarna væri framtíðarverkefni sem ekki þyrfti að hugsa um nú.

„Við erum báðir baráttuhundar og báðir með mjög sterkar skoðanir,“ sagði Heimir um þá Bjarna. „Við áttum því langa og góða fundi til þess að komast að því hvort þetta væri hægt og í ljós kom að við höfum ótrúlega líkar skoðanir. Þetta er því alveg hrikalega spennandi verkefni,“ sagði Heimir við Morgunblaðið.

Báðir telja lykilatriði að Sævar Árnason verði áfram aðstoðarþjálfari liðsins. „Verkaskiptingin er alveg klár. Bjarni er snillingur í að greina bæði andstæðingana og okkar eigið lið, til dæmis með vídeói. Ég verð hins vegar meira í því að stýra æfingum með Sævari. En það er ljóst að við Bjarni verðum að tala vel saman heima. Þetta verður örugglega hálfgert annað hjónaband; hann verður að minnsta kosti góður símavinur!“

Áframhaldandi uppbygging

Hannes Karlsson formaður Akureyrar segir vissulega óvenjulegt að lið sé með tvo spilandi aðalþjálfara, „en þetta er ákveðin þróun og liður í því að viðhalda uppbyggingunni sem hófst hér fyrir sex árum,“ segir Hannes. „Þetta þýðir að ekki verður nein stórkostleg breyting hjá okkur og við viljum horfa til þess að ungu strákarnir njóti góðs af starfinu. Það hefur verið blómlegt og næsta vetur gætum við orðið með 40 manna hóp í 2. flokki.“
Akureyri
» Heimir og Bjarni hafa verið lykilmenn í liði Akureyrar síðustu árin. Heimir er fyrirliði og Bjarni varð markakóngur N1-deildarinnar í vetur, skoraði 163 mörk í 21 leik.
» Akureyri – handboltafélag var stofnað sumarið 2006 þegar KA og Þór ákváðu að sameina kraftana. Þetta er því sjötta keppnistímabil félagsins. Akureyri lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra en tapaði fyrir FH.