Ingileifur Jónsson
Ingileifur Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Vegagerðin tók ekki lægsta tilboði sem barst í að leggja Vestfjarðaveg á milli Eiðis og Þverár. Þess í stað hefur Vegagerðin tekið upp viðræður við Suðurverk hf.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Vegagerðin tók ekki lægsta tilboði sem barst í að leggja Vestfjarðaveg á milli Eiðis og Þverár. Þess í stað hefur Vegagerðin tekið upp viðræður við Suðurverk hf. um verkið en fyrirtækið átti næstlægsta tilboðið af þeim fimm sem bárust. Hefur verktakinn sem átti lægsta boðið farið fram á rökstuðning fyrir þessari ákvörðun frá Vegagerðinni.

Þegar tilboð voru opnuð þann 27. mars var tilkynnt að verktakafyrirtæki Ingileifs Jónssonar hefði átt lægsta tilboðið. Það hefði hins vegar ekki staðist þær kröfur sem Vegagerðin gerði til verktaka í svo stórum verkum.

Vildi Vegagerðin meina að verktakinn stæðist ekki kröfur um meðalveltu á árunum 2008-2010, eigið fé og að hafa unnið verk sem nemur 60% af stærð framkvæmdarinnar við Vestfjarðaveg.

„Við erum ósammála þessari ákvörðun Vegagerðarinnar og getum ekkert annað gert en að árétta okkar sjónarmið. Mér þykir skrýtið ef menn ætla að semja við annan verktaka án þess að gera lægstbjóðanda grein fyrir því um hvað málið snýst,“ segir Ingileifur. Málið er nú í höndum lögmanns hans sem sendi Vegagerðinni bréf þar sem hann óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun hennar. Fyrirtækið telji sig uppfylla kröfur Vegagerðarinnar og nefnir Ingileifur sem dæmi verk sem það vann á Þröskuldum sem nemi meira en 60% af þessari framkvæmd.

Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, uppfyllti fyrirtæki Ingileifs ekki skilyrði Vegagerðarinnar. Þannig hafi til dæmis samningsupphæðin í verkinu á Þröskuldum í lægsta tilboðinu verið uppfærð með tilliti til verðlags sem ekki sé venjan að gera.

„Við getum ekki breytt þessari reglu. Við gerum þetta eins og við höfum alltaf gert,“ segir hann.