2:0 Giordan Watson og félagar í Grindavík standa mjög vel að vígi eftir sigurinn í Ásgarði. Stjörnumaðurinn Sigurjón Lárusson nær ekki til boltans og róður Garðbæinga er orðinn erfiður.
2:0 Giordan Watson og félagar í Grindavík standa mjög vel að vígi eftir sigurinn í Ásgarði. Stjörnumaðurinn Sigurjón Lárusson nær ekki til boltans og róður Garðbæinga er orðinn erfiður. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Ásgarði Kristinn Friðriksson sport@mbl.is Í gærkveldi hélt körfuknattleiksveislan áfram þegar Grindvíkingar heimsóttu Ásgarð í öðrum leik sínum í einvíginu við Stjörnuna.

Í Ásgarði

Kristinn Friðriksson

sport@mbl.is

Í gærkveldi hélt körfuknattleiksveislan áfram þegar Grindvíkingar heimsóttu Ásgarð í öðrum leik sínum í einvíginu við Stjörnuna. Grindvíkingar sigruðu, 71:68, og geta gert út um málin á sínum heimavelli á mánudagskvöldið.

Fréttir frá aga- og úrskurðarnefnd voru búnar að setja mark sitt á umræðu leiksins því nefndin dæmdi Fannar Helgason úr Stjörnunni í tveggja leikja bann og heimamenn eðlilega stjörnuvitlausir yfir þeirri ákvörðun; þarna missa þeir byrjunarliðsmann, fyrirliða sinn og tveggja metra trukk sem hefði vissulega gert meira gagn í áflogunum inná vellinum.

Eins og hvítan í munnvikum

Fyrri hálfleikurinn var eins og hvítan sem safnast stundum fyrir í munnvikunum; hvimleiður og leiðigjarn. Nathan Bullock var það eina sem gladdi augað, var sterkur á báðum endum vallarins. Tölfræði hálfleiksins var heimamönnum í hag en slæm þriggja stiga nýting kostaði þá skildinginn. Einnig voru þeir hrikalegir klaufar á lokamínútum hálfleiksins og Grindavík nýtti sér klaufaskap þeirra og staðan í hálfleik 33:39.

Grindavík byrjaði seinni hálfleikinn betur og jók muninn snemma í 10 stig. Hittni Stjörnunnar var sorgleg og klaufalegar sendingar hjálpuðu ekki liðinu.

Við lok þriðja leikhlutans ætlaði allt um koll að keyra; Jovan setur þá þrist og kemur heimamönnum yfir og ljóst að síðustu mínútur leiksins áttu eftir að reyna töluvert á gráa efnið í leikmönnum í stríði tauga, sina og vöðvamassa. Staðan fyrir síðasta hluta 53:51 fyrir heimamenn.

Mikil spenna undir lokin

Það var allt annað að sjá bæði lið í síðasta fjórðung; hraðinn í leiknum jókst til muna og allt önnur ára myndaðist. Stjörnumenn hristu af sér alla slikju og náðu snemma 5 stiga forskoti; Grindvíkingar héldu áfram að spila sinn leik en var fyrirmunað að skora. Snertingin í leiknum var með þeim hætti að dómarar leiksins áttu fullt í fangi með starf sitt; of mikið af óþarfa snertingu sem kom til vegna þess að línurnar voru ekki settar í upphafi. Þegar 3:30 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 63:56 fyrir heimamenn og útlitið gott fyrir þá. Átta stig í röð frá Grindavík komu sér vel og staðan þegar mínúta lifði leiks 65:64 fyrir heimamenn sem áttu boltann með 2 sekúndur á skotklukkunni. Þeir kasta hinsvegar boltanum frá sér og Bullock jafnar leikinn.

Shouse rekur boltann í ráðaleysi í næstu sókn, tekur lélegt skot sem geigar, Gindavík skorar, 65:67, og Cothran fær tækifæri að jafna leikinn af vítalínunni þegar 22 sekúndur voru eftir. Hann hittir úr hvorugu vítinu og Watson fær tækifæri að auka muninn, sem hann gerir. Þarna þurftu heimamenn á tveimur kraftaverkum að halda; hið fyrra kom þegar Shouse setti niður þrist og minnkaði muninn í 1 stig. Þegar 8 sekúndur voru eftir var staðan 68:71; Shouse fékk galopið skot í lokin til að setja leikinn í framlengingu en var ekki bænheyrður í þetta skipti og sigurinn grindvískur.

Varnarleikur Grindavíkur í leiknum var skínandi; allt flæði skorti hinsvegar í sóknina og enginn leikmaður með áberandi heita hönd. Watson skoraði nokkuð en þessi sigur var einfaldlega frábærri liðsheild að þakka sem skilaði sér í toppvarnarleik; hvert einasta skot heimamanna inní teig var gert erfitt og baráttan til fyrirmyndar. Sóknarfráköstin, 23, voru einnig lykill að sigrinum í gær. Það verður erfitt að sigra þetta lið.

Geta sjálfum sér um kennt

Stjörnumenn spiluðu fínan leik; mjög góð vörn og barátta í seinni hálfleik var hinsvegar of lítið, of seint. Þeir geta sjálfum sér um kennt en nokkur augnablik í lokin voru illa framkvæmd. Enginn var sjóðheitur í sókninni en þar þurftu þeir virkilega á slíkum einstaklingi að halda. Þeir voru í frábærri stöðu þegar nokkrar mínútur lifðu leiks en brenndu sig illa þegar þeir gáfu opna þrista og fengu á sig 8 stig í röð. Slíkt hlaðborð má ekki bjóða uppá frítt þegar Grindvíkingar eru svangir. Klaufaskapur heimamanna algjör og möguleikar þeirra næstum horfnir af sjóndeildarhringnum.

Stjarnan – Grindavík 68:71

Ásgarður, undanúrslit karla í körfubolta, annar leikur, föstudag 13. apríl 2012.

Gangur leiksins : 4:5, 8:13, 14:17, 19:18 , 23:21, 23:28, 29:33, 33:39 , 36:44, 41:46, 45:50, 53:51 , 59:54, 59:54, 63:62, 68:71 .

Stjarnan : Justin Shouse 16/8 fráköst/6 stoðs., Jovan Zdravevski 15/6 fráköst, Keith Cothran 14/9 fráköst, Marvin Valdimarsson 6/4 fráköst/5 varin skot, Renato Lindmets 6/10 fráköst/5 stoðs./3 varin skot, Guðjón Lárusson 6, Dagur Kár Jónsson 3, Sigurjón Örn Lárusson 2.

Fráköst : 28 í vörn, 11 í sókn.

Grindavík : Giordan Watson 24/6 fráköst/8 stoðsendingar, J'Nathan Bullock 13/10 fráköst, Þorleifur Ólafsson 10/5 fráköst, Ólafur Ólafsson 7, Sigurður Þorsteinsson 7/10 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 5/6 fráköst, Ryan Pettinella 3/4 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 2.

Fráköst : 25 í vörn, 20 í sókn.

Dómarar : Rögnvaldur Hreiðarsson, Jón Guðmundsson.

*Staðan er 2:0 fyrir Grindavík.