Listahátíð Seltjarnarneskirkju 2012 verður sett í kirkjunni í dag kl. 15 og stendur fram til 28. apríl nk. Að sögn skipuleggjenda hefur sérstaklega verið vandað til hátíðarinnar í ár í tilefni þess að 20 ár eru frá því að hún var fyrst haldin.
Í setningarathöfninni í dag mun formaður listahátíðarnefndar, dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor, fjalla um þema hátíðarinnar sem að þessu sinni er Biblían og menningin. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur mun flytja erindi um Karólínu Lárusdóttur, en hún er myndlistarmaður hátíðarinnar og verður í kjölfar erindisins opnuð sýning í kirkjunni og safnaðarheimilinu á nýjum vatnslitamyndum eftir Karólínu. Þá munu Guðrún Helga Stefánsdóttir sópran, Friðrik Vignir Stefánsson organleikari og Fanný K. Tryggvadóttir þverflautuleikari flytja aríur úr Mattheusar- og Jóhannesarpassíum J.S. Bachs. Dagskrá Listahátíðar Seltjarnarneskirkju er birt í heild sinni á www. seltjarnarneskirkja.is og www.kirkjan.is.