Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að „hugsanlega“ hefði hann átt að ræða um aðild ESB að málshöfðun gegn Íslandi vegna Icesave við utanríkismálanefnd.
Þá segir hann að hann beri ábyrgð á að segja forsætisráðherra frá gangi mála, en í gær upplýsti Jóhanna Sigurðardóttir að hún hefði ekki vitað af þessari nýjustu árás ESB á Ísland.
Jóhanna sér að vísu ekkert athugavert við árásina, svo hún mun ekki gera mikið úr þessum glöpum Össurar. Hann verður þess vegna líklega ekki látinn axla ábyrgð vegna þessa máls, að minnsta kosti ekki af hálfu forsætisráðherra.
En ætli einhver muni axla ábyrgðina á öðrum vettvangi?
Jafnvel gleymnir núverandi ráðherrar muna sennilega eftir sakamáli á hendur fyrrverandi samráðherra sínum sem þeir leyfðu að yrði ákærður fyrir að hafa „látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.“
Flokkast það ekki undir mikilvægt stjórnarmálefni að ESB, sem ráðherrarnir hafa látið Ísland sækja um aðild að, skuli með ósvífnum hætti taka þátt í málssókn gegn landinu?
Hver ber ábyrgð á að málið var ekki rætt á ráðherrafundi fyrr en það var um seinan?