Ráðherra fer rangt með til að knýja fram samþykkt rammaáætlunar

Ýmsum brögðum hefur verið beitt til að halda aftur af atvinnustarfsemi í landinu í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ástæða þess að ríkisstjórnin hefur tekið þá afstöðu að hindra atvinnulífið er sú að með því að hindra starfsemi þess er hægt að fækka ágreiningsefnum sem komast upp á yfirborðið. Þau ágreiningsefni sem ekki er hægt að halda frá opinberu ljósi þykja næg þó að þeim sé ekki fjölgað með athafnasemi sem fer fyrir brjóstið á ákveðnum öflum innan beggja stjórnarflokka.

Þannig hefur lengi verið komið í veg fyrir að hægt sé að ráðast í hagkvæma virkjanakosti sem taldir eru viðunandi út frá umhverfissjónarmiðum. Ágæt dæmi um þetta eru virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar hefur nú með þingsályktunartillögu lagt til að verði settar í biðflokk þrátt fyrir að þeim hafi verið skipað í orkunýtingarflokk samkvæmt þeirri tillögu sem gerð var til ráðherrans.

Í rökstuðningi ráðherrans segir að mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdanna renni úr gildi á næsta ári og því sé ljóst að „nýtt mat á umhverfisáhrifum mun verða unnið vegna virkjunarkostsins.“ Þetta notaði ríkisstjórnin svo sem röksemd fyrir því að framkvæmdir myndu ekkert tefjast þó að virkjanir í neðri hluta Þjórsár væru settar í biðflokk, þær hefðu hvort eð er þurft nýtt mat.

Nú er komið fram að ekkert var til í þessu og aðeins um uppspuna ráðherrans að ræða til að afvegaleiða umræðuna og blekkja almenning. Í samtali við Morgunblaðið upplýsti forstjóri Skipulagsstofnunar að ekki væri rétt að nýtt mat þyrfti að fara fram. Umhverfismatið er gefið út til tíu ára en í lögum um mat á umhverfisáhrifum segir að eftir þann tíma geti Skipulagsstofnun ákveðið hvort endurskoða þurfi matið að hluta eða í heild áður en leyfi til framkvæmda sé veitt.

Langur vegur er á milli rökstuðnings ríkisstjórnarinnar annars vegar og lagatextans og orða forstjóra Skipulagsstofnunar hins vegar. Þingsályktunartillaga iðnaðarráðherra er því byggð á fölskum forsendum og hlýtur að verða meðhöndluð sem slík af þinginu. Leyfi meirihluti þingsins ráðherranum að komast upp með slík vinnubrögð og hleypi ályktuninni í gegn er augljóst að eitt af fyrstu verkefnum nýrra stjórnvalda og nýs þings yrði að lagfæra þau mistök og samþykkja orkunýtingarstefnu byggða á réttum forsendum.