<strong>Suðupottur</strong> &bdquo;Við lítum á sýninguna sem vinnustofu,&ldquo; segir Kristinn og útilokar ekki að sýningin geti tekið breytingum á sýningartímanum. Nokkur verkanna verða aðeins kynnt á sýningunni en sett upp síðar á árinu.
Suðupottur „Við lítum á sýninguna sem vinnustofu,“ segir Kristinn og útilokar ekki að sýningin geti tekið breytingum á sýningartímanum. Nokkur verkanna verða aðeins kynnt á sýningunni en sett upp síðar á árinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Öll sköpun og allar breytingar skapa ákveðinn hita. Það eru alltaf árekstrar, en þeir geta líka verið mjög skapandi.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Öll sköpun og allar breytingar skapa ákveðinn hita. Það eru alltaf árekstrar, en þeir geta líka verið mjög skapandi. Út úr þeim getur alltaf komið eitthvað sem við vitum ekki hvað er, en getur skipt miklu máli,“ segir Kristinn E. Hrafnsson, einn þriggja sýningarstjóra sýningar sem nefnist Núningur og opnuð verður í Listasafni ASÍ í dag kl. 15. Sýningarstjórar með Kristni eru Einar Garibaldi Eiríksson og Ólafur S. Gíslason. Aðrir sýnendur eru Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Ásmundur Ásmundsson, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Brynjar Helgason, Christian Hasucha, Elin Wikström, Gunnar J. Árnason, Hjálmar Sveinsson, Hlynur Hallsson, Indriði Arnar Ingólfsson, Ingirafn Steinarsson, Ívar Glói Gunnarsson, Karl Torsten Stallborn, Katrín Eyjólfsdóttir, Katrína Mogensen, Margrét H. Blöndal í samstarfi við Harald Jónsson og Hörpu Árnadóttur, Nikulás Stefán Nikulásson, Nína Óskarsdóttir, Páll Haukur Björnsson, Ósk Vilhjálmsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Óli Baldursson, Una Ösp Steingrímsdóttir, Unnar Örn J. Auðarson, Þorvaldur Þorsteinsson, Þröstur Valgarðsson og Æsa Sigurjónsdóttir.

Að sögn Kristins er meginþema sýningarinnar núningur borgar og menningar og birtingarmyndir listarinnar í samfélaginu. Sýningin hverfist þannig um hugmyndir listamanna sem nýta sér þær sérstæðu aðstæður sem borgin býður uppá, allt frá einfaldri framsetningu borgarinnar í myndlist til hverskonar vinnu með staðhætti, inngrip í opinber rými, jafnt sem flóknari samfélagslegar tengingar.

Líta á sýninguna sem vinnustofu

„Við sýningarstjórarnir fórum að stinga saman nefjum sl. haust og ræða um ástandið í myndlistarheiminum og myndlistina sem tengist samfélaginu með beinum hætti. Við höfðum af því áhyggjur að listamenn væru að lokast inni með sínar hugmyndir. Út af ástandinu hefur verið samdráttur á öllum sviðum og ekki mikið leitað til listamanna þegar kemur að umræðu um borgina og borgarmálefni. Við vildum varpa ljósi á þetta,“ segir Kristinn þegar hann er spurður um tildrög sýningarinnar.

„Við lítum á sýninguna sem vinnustofu, þannig að við vissum ekki og vitum í raun ekki fullkomlega ennþá hvernig sýningin verður, en okkur sýnist á öllu að flestir listamennirnir leggi fram margskonar hugmyndir um það hvað mætti skoða í borginni og birta nýja sýn, enda snýst þetta bara um að nota frjótt fólk til að hafa áhrif á umhverfið,“ segir Kristinn og tekur fram að nokkur verkanna verði aðeins kynnt á sýningunni en sett upp á ólíkum tímum og í margvíslegum birtingarmyndum á víð og dreif um borgina síðar á þessu ári.

Þeirra er borgin

Athygli vekur að í sýningunni taka ekki aðeins þátt listamenn heldur líka fræðimenn. „Snertifletirnir eru mjög margir þegar farið er að velta fyrir sér eðli borgarinnar sem og hvar og hvernig listin getur birst. Okkur þótti áhugavert að fá inn á sýninguna faglegar bollaleggingar fræðimanna sem skrifa um myndlist, skipulagsmál og heimspeki. Við vorum því ekki að biðja fræðimennina að skrifa um sýninguna heldur um hugmyndina að baki sýningunni,“ segir Kristinn.

Sem lið í því að skapa umræðu verður vikulega á sýningartímanum boðið til umræðna og málþinga um hugmyndir og verkefni listamannanna og málefni þeim tengd. „Við lítum svo á að listamenn séu hluti af samfélaginu og að þetta sé ákveðin tegund af samfélagsumræðu sem getur farið fram milli listamanna og borgarinnar eða meðal fólks almennt og út úr því geti komið áhugaverðir fletir. Það er hægt að ræða fræðilegu ritgerðirnar sem birtast í sýningarskránni, sjónarmið annarra hópa og verkin sjálf. Það eru því mjög margir fletir á þessu sem geta komið fram. Okkur langar til að halda því til streitu út sýningartímann að listamenn verði þarna á ákveðnum tímum og á staðnum sé umræðuborð,“ segir Kristinn og tekur fram að ekki sé útilokað að sýningin breytist á sýningartímanum.

Nokkrir þeirra listamanna sem þátt taka í sýningunni hafa komið að kennslu í vinnustofu á vormisseri við Listaháskóla Íslands, þar sem nemendur hafa tekist á við tengdar listhugmyndir og þróað út frá þeim verk á sínum forsendum fyrir sýninguna. „Okkur fannst þetta mikilvæg tenging enda mikill suðupottur í Listaháskólanum og aðkoma nemendanna er ekki síst mikilvæg, því þeirra er borgin.“

Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 13 til 17. Aðgangur er ókeypis.