Stúlknalandslið Íslands í knattspyrnu fór vel af stað í milliriðli Evrópukeppninnar í Belgíu í gær þegar það sigraði England, 1:0, í sínum fyrsta leik. Sandra María Jessen skoraði markið á 14. mínútu. Sigurinn þótti eftir atvikum sanngjarn gegn sterku ensku liði sem talið var sigurstranglegt í riðlinum.
Ísland mætir Sviss á morgun og Belgíu á miðvikudag en þessi fjögur lið spila um eitt sæti í undanúrslitum keppninnar. Ísland komst einmitt í undanúrslit í fyrsta skipti á síðasta ári og náði með því besta árangri íslensks knattspyrnulandsliðs frá upphafi. Nokkrar stúlknanna í liðinu í dag voru einnig með í fyrra. vs@mbl.is