Bjarney Guðrún Jónsdóttir fæddist á Folafæti í Ísafjarðarsýslu 14. júlí 1921. Hún lést þann 9. apríl 2012 á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar.
Foreldrar hennar voru: Jón Guðjón Kristján Jónsson, f. 23. ágúst 1892 á Skarði á Snæfjallaströnd, N-Ís., d. 30. sept. 1943 og Halldóra María Kristjánsdóttir, f. 1882 í Laugalandsseli, Nauteyrarhreppi, N-Ísafjarðarsýslu, d. 19. maí 1944.
Systkini Bjarneyjar voru: Hallfríður Kristín, f. 1920, d. 1985, Kristín Guðrún, f. 1928, Pálína, f. 1925, d. 2011, Halldóra Margrét, f. 1930, d. 1965, Hermann, f. 1931, d. 1932, Kristinn Jón, f. 1934, d. 2003, Höskuldur, f. 1937. Bjarney Guðrún giftist þann 23.10. 1941 Þórarni Ásmundssyni bónda að Vífilsstöðum í Hróarstungu, f. 17. janúar 1915, d. 26. október 1997. Börn þeirra eru:
1) Ásmundur Þórarinsson, f. 19. maí 1942, hans kona er Auðbjörg Halldís Hrafnkelsdóttir, f. 2. júlí 1948. Þau eiga fjögur börn, 12 barnabörn og eiga heima á Heykollsstöðum í Hróarstungu. 2) Jón Þórarinsson, f. 30. júní 1943, hans kona er Ólafía Herborg Jóhannsdóttir, f. 9. mars 1945, þau eiga þrjár dætur, tvö barnabörn og eiga heima í Fellabæ. 3) Eyþór Þórarinsson, f. 12. júlí 1945, hans kona er Sigurlaug Albertsdóttir, f. 14. febrúar 1950, þau eiga fjögur börn, sex barnabörn og eiga heima í Kópavogi. 4) Veigur Þórarinsson, f. 4. júní 1947, hans kona er Elín Tryggvadóttir, þau eiga eina dóttur, tvö barnabörn og eiga þau heima á Egilsstöðum.
Jarðarför Bjarneyjar fer fram frá Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu í dag, 14. apríl 2012, og hefst athöfnin kl. 14.
Í dag kveð ég ömmu mína. Það er sárt að missa nákominn og engu skiptir ef viðkomandi var kominn á efri ár. Dauðinn ýtir við manni og opnar hugarheiminn fyrir hugleiðingum um tilgang lífsins og dauðann. Líklega upphófust trúarbrögð einmitt vegna þessara sömu vangaveltna fyrir árþúsundum. Líklega hefur verið jafn erfitt þá eins og núna að kveðja ástvin.
Amma var ótrúleg kona sem ólst upp við mikla fátækt vestur á fjörðum en um tvítugt lagði hún land undir fót og fluttist austur á land þar sem hún gerðist kaupakona hjá langafa mínum og ömmu á Vífilsstöðum í Hróarstungu. Stuttu síðar giftist hún afa og saman eignuðust þau fjóra syni.
Ég ber sterkar taugar til Vífilsstaða vegna þess að ég var svo heppinn að fá að dvelja hjá ömmu og afa hvert sumar frá unga aldri og fram á unglingsárin. Allt mitt líf hef ég dvalið í ömmubæ á sumrin og geri enn. Undursamlegar minningar mínar frá dvölinni þar eru sveipaðar ljóma og ylja mér um hjartarætur. Amma kemur við sögu í stórum hluta minningabrotana enda var hún mér einstaklega góð og þolinmæðin sem hún sýndi mér og öðrum var einstök. Amma gaf aldrei neitt annað í skyn en að barnabörnin væru velkomin til sumardvalar þótt eflaust höfum við stundum þvælst fyrir í önnum sveitastarfsins. Amma mín var einstök kona og í minningum mínum konan sem bakaði bestu súkkulaðisnúða sem ég hef smakkað og prjónaði fallegar lopapeysur, kenndi mér vísur og að leggja kapal. Hún var hörkudugleg kona sem aldrei kvartaði og aldrei talaði illa um nokkurn mann. Amma var hæglát kona sem vildi öllum vel. Það er mér sérstaklega minnisstætt þegar ég, borgarstelpan í sveitinni hjá ömmu og afa, bað ítrekað um „fernumjólk“ en ekki „kúamjólk“ og til að bregðast við þessum kröfum borgarbarnsins fyllti hún mjólk á gamlar fernur og bauð borgarbarninu sem ekkert kvartaði eftir það um skrítið bragð af mjólkinni. Þannig var amma gerð. Þrátt fyrir að hafa eflaust hlegið að vitleysunni í mér þegar ég ekki sá til var ótrúlegt hvað hún var tilbúin að fara eftir duttlungum barnabarnsins og hvað hún lagði sig fram til að gera dvölina í sveitinni sem allra besta. Í minningum mínum var ávallt sumar og sól í sveitinni og í þeirri ímynd kristallast dvöl mín hjá ömmu og afa og skilur eftir spor ánægjunnar í sálu minni.
Síðustu árin glímdi amma við elliglöp og það var erfitt að heimsækja hana og upplifa að stundum mundi hún ekkert hver ég var. Þrátt fyrir það er ég viss um að hún hafi vel vitað og fundið að við vorum tengdar sterkum blóðböndum. Aðeins örfáum dögum fyrir andlátið brosti hún framan í mig og strauk vanga minn. Þá var ég viss um að hún þekkti mig þó hún hefði ekki haft orku til að segja neitt. En ég fann það.
Dauðinn tilheyrir litrófi lífsins og neyðir mann til að hjúfra sig um stund í sorginni. Sorgin liggur þrátt fyrir allt á landamærum gleðinnar þar sem mætast ólíkar tilfinningar og takast á hið innra en þegar upp er staðið sitja eftir góðar minningar um ástvin og tíminn deyfir sorgina og að lokum ríkir sátt.
Hvíl í friði, amma mín.
Eyrún Eyþórsdóttir.
Þegar við lítum til baka þá eru margar af okkar bestu og skemmtilegustu minningum tengdar ömmu og þeim tímum sem við dvöldum hjá henni og afa á Vífilsstöðum.
Amma hafði svo góða nærveru og var alltaf svo létt og kát, hógvær, lífsglöð, umhyggjusöm, þolinmóð og góð. Það var aldrei stress í kringum ömmu og einhvern veginn fann hún alltaf nægan tíma til að sýna og segja frá svo mörgu skemmtilegu þó að eftir á að hyggja hefði verið gaman að vita miklu meira um hana og hennar líf.
Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu og þar upplifðum við okkur oft eins og prinsessur því að amma dekraði alltaf við okkur þegar við komum. Það var alltaf kandís í búrinu og kakómalt með öllum mat þegar við vildum ekki sveitamjólkina. Það voru ormasúpur eða hvað sem okkur langaði í að borða og það að vera matvandur var ekki til í orðaforða ömmu. Amma var líka dugleg að kenna okkur að spila og að leggja kapla og hún passaði alltaf upp á að það væru ekki kaldar tær undir sænginni þegar við fórum að sofa. Amma nuddaði þær alltaf með hlýju mjúku höndunum um leið og hún fór með kvöldbænina Sitji guðs englar.
Amma var mikil prjónakona og þær eru ófáar flíkurnar sem hún gaukaði að okkur í gegnum tíðina, auk þess sem það dugði alltaf að fara (viljandi) í heimsókn í götóttum ullarsokkum til þess að fá þá til baka eins og nýja. Einhvern veginn náði amma að gera við þá á meðan á heimsókninni stóð auk þess að bera fram kaffi, kökur, mat og allt sem mögulega var hægt að tína fram. Við fórum aldrei svangar né í götóttum sokkum frá ömmu.
Það eru margar góðar minningar sem við eigum um ömmu og við búum ætíð að því að hafa átt svona yndislega konu að. Amma sem var alltaf til staðar þegar við komum austur og einhvern veginn fannst okkur að svona yrði þetta alltaf. Síðustu árin hefur sú amma sem við minnumst smátt og smátt horfið og lítið orðið eftir af því sem við þekktum hérna áður fyrr.
En við geymum allar minningarnar innra með okkur og hugsum með hlýju og þakklæti til ömmu okkar sem gerði líf okkar og fjölskyldna okkar svo miklu betra með nærveru sinni og hlýju. Við söknum þessarar einstöku konu sem gerði heiminn að betri stað bara með því að vera til.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Guðrún Bjarney, Eygló Huld, Sandra Mjöll Jónsdætur
og fjölskyldur.
Margt væri hægt að læra af þínum kostum, þú varst geðgóð, dugleg, nægjusöm, einstaklega gestrisin, hugsaðir vel um fólkið í kringum þig og kvartaðir aldrei. Þú varst vestfirskur dugnaðarforkur.
Mig langar að enda þetta á bæn sem einmitt þú kenndir mér þegar ég var lítil stelpa í sveitinni hjá þér.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Takk fyrir allt og blessuð sé minning þín.
Kveðja,
María Veigsdóttir
og fjölskylda.
Megi hún tengdamóðir mín hafa þakkir fyrir allt sem hún hefur gert fyrir okkur fjölskylduna.
Megi allar góðar vættir styðja og vernda alla eftirlifandi ástvini.
Ólafía Herborg.