Traust Páll Magnússon segir RÚV njóta trauts á meðal landsmanna.
Traust Páll Magnússon segir RÚV njóta trauts á meðal landsmanna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Skúli Hansen skulih@mbl.is „Inni í spurningunni sjálfri er undirliggjandi staðhæfing sem stenst ekki.

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

„Inni í spurningunni sjálfri er undirliggjandi staðhæfing sem stenst ekki. Sú undirliggjandi staðhæfing er í þá veru að þáttagerðarmenn á RÚV séu að gefa út yfirlýsingar eða lýsa skoðunum sínum í pólítískum deilumálum á opinberum vettvangi og síðan að stjórna þáttum sem að fjalla um þessi sömu deilumál,“ segir Páll Magnússon, útvarpsstjóri, spurður út í niðurstöður könnunar sem greint var frá í grein Bergþórs Ólasonar í Morgunblaðinu sl. miðvikudag.

Að sögn Páls er umrædd staðhæfing gefin í könnuninni og síðan spurt hvort þetta sé eðlilegt. „Sjálfur myndi ég svara spurningunni eins og meirihluti þáttakenda hennar gerir, þ.e. „Nei, þetta væri óeðlilegt,““ segir Páll og bætir við: „Staðhæfingin sem liggur inni í spurningunni er hinsvegar röng. Þáttargerðarmenn á RÚV ástunda það ekki að lýsa yfir skoðunum sínum á opinberum vettvangi í deilumálum og fjalla síðan um sömu mál í þáttum sínum.“ Páll segir að þó svo að það komi hvergi berum orðum fram í grein Bergþórs þá virðist vera undirliggjandi að Bergþór hafi verið að tiltaka Egil Helgason og blogg sem hann heldur úti á vefsíðunni Eyjan.is. „Nú þyrfti þá að benda mér á þá staði í þessu bloggi þar sem Egill tekur afstöðu með eða á móti einstökum deilumálum í landinu,“ segir Páll og bendir á að yfirleitt sé Egill að vega á báða bóga í pólitískum deilumálum. Hinsvegar segir Páll að það megi leiða að því gild rök að það sé ekki við hæfi að þáttastjórnendur haldi úti bloggsíðum af þessu tagi yfir höfuð, það séu bæði sjónarmið sem vegi með og á móti slíku.

Gagnrýni skýtur skökku við

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í fyrradag kom fram að þingmennirnir Birgir Ármannsson og Gunnar Bragi Sveinsson gagnrýndu RÚV fyrir það að skoðanir starfsmanna þess hefðu stundum haft áhrif á umfjöllun. Að eigin sögn finnst Páli þessi gagnrýni þeirra skjóta svolítið skökku við. „Aldrei hefur álit fólks á Alþingi og alþingismönnum risið lægra heldur en í dag,“ segir Páll og bætir við að nú sé kastað steinum að RÚV sem njóti yfirburðartrausts á meðal landsmanna. Gunnar Bragi sagði við Morgunblaðið sl. fimmtudag að hann teldi að RÚV hefði brugðist sem sjálfstæður, eða hlutlaus, fjölmiðill í mörgum stórum málefnum á Íslandi. Spurður út í þessi ummæli Gunnars segir Páll að ef þetta væri rétt þá ætti það að sjást á reglulegum mælingum á trúverðugleika fjölmiðla. „Þetta kann að vera upplifun þingflokksformanns framsóknarmanna, ég dreg það ekki í efa, þetta er hinsvegar ekki upplifun almennings á Íslandi,“ segir Páll.