Bergþóra Gunnarsdóttir fæddist í Húsavík við Borgarfjörð eystri 27. ágúst 1912. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 1. apríl 2012.

Útför Bergþóru fór fram frá Grafarvogskirkju 13. apríl 2012.

Bergþóra Gunnarsdóttir föðursystir okkar er látin í hárri elli. Við bræðurnir viljum minnast hennar með örfáum orðum þar sem hún er sú frænka sem var okkur nánust.

Begga frænka, eins og hún var alltaf kölluð, var í miklu uppáhaldi á bernskuheimili okkar. Faðir okkar og hún voru alla tíð mjög náin og góð vinátta tókst einnig með honum og eiginmanni hennar, Kjartani Sveinssyni.

Hjónin í Heiðagerði 3 voru ætíð boðin og búin til að hlaupa undir bagga þegar til þeirra var leitað. Þegar Gunnar var þriggja ára varð hann fyrir slysi og var sendur suður til aðhlynningar. Þá var leitað til Bergþóru og hún annaðist hann eins og sinn eigin son þann tíma sem hann þurfti á læknisaðstoð að halda. Þegar við systkinin fórum síðan að koma suður til náms áttum við traust athvarf hjá frænku okkar. Hún tók okkur opnum örmum og var ætíð reiðubúin að aðstoða og leiðbeina þegar á þurfti að halda.

Begga frænka var létt og skemmtileg og hvers manna hugljúfi. Hún var ákveðin í skoðunum, hnyttin í svörum og mál hennar var oft kryddað góðlátlegri kímni. Hún hafði góða nærveru og átti auðvelt með samskipti við fólk. Með sinni óþvinguðu framkomu og létta skopskyni hafði hún einstaka hæfileika til að draga fram áhugaverðar hliðar á viðmælendum sínum og lífga upp á tilveruna. Vegna þessara eiginleika var hún mjög vinsæl og fólk laðaðist að henni. Vinsældir hennar gerðu að verkum að hún varð eins konar tengiliður sem tengdi saman föðurætt okkar enda var oft mannmargt á heimilinu í Heiðagerði.

Guð blessi minningu Bergþóru Gunnarsdóttur. Öllum aðstandendum hennar vottum við okkar dýpstu samúð.

Gunnar Karlsson,

Stefán Karlsson.

Kynni mín af Bergþóru voru stutt en góð. Ég kynntist henni árið 2006 þegar dóttir mín kynntist ástinni sinni, honum Jóhannesi Magnússyni, barnabarni Bergþóru. Þessi kona varð henni strax sem amma og kann ég henni mínar bestu þakkir fyrir. Bergþóra reyndist mér líka góð og gaman fannst mér að sitja með henni kvöldstund og spjalla, því frá mörgu hafði hún að segja. Vil ég hér þakka henni mjög svo ánægjuleg kynni og finnst mér henni best lýst með þessum orðum.

„Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt,

faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd.

„Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra.

„Einstakur“ á við um þá sem eru dáðir og dýrmætir og þeirra skarð verður aldrei fyllt.

„Einstakur“ er orð sem best lýsir þér.

Sigurbjörg Einarsdóttir.