Mér varð á í messunni, þegar ég fjallaði um skírnarsálminn „Ó, blíði Jesús blessa þú“ á miðvikudag.

Mér varð á í messunni, þegar ég fjallaði um skírnarsálminn „Ó, blíði Jesús blessa þú“ á miðvikudag. Í sálmabókinni er hann sagður eftir Ólaf Guðmundsson og Valdimar Briem og gekk ég út frá því að fyrsta erindið væri eftir Ólaf, en var of fljótur á mér. Valdimar orti sálminn eins og hann stendur í sálmabókinni. Ég fór í smiðju til Kristjáns Vals Ingólfssonar vígslubiskups í Skálholti og Einars Sigurbjörnssonar prófessors og er þeim þakklátur fyrir hversu vel þeir brugðust við. Ég tek upp eftir Kristjáni Val:

„Skírnarsálmurinn í gerð Valdimars Briem birtist í sálmabókinni 1886. Í þeirri útgáfu var höfunda ekki getið við hvern sálm eins og síðar varð, en í yfirliti kemur fram að sálmurinn er merktur með x sem táknar annaðhvort að hann sé saminn upp úr öðrum sálmi eða þýddur. Þannig vildi Valdimar að hann birtist, hann var jú sjálfur í nefndinni. Hvergi er getið um það í þessari bók hvað sá sálmur hét sem umortur var og gildir það eins um þennan.

Næsta sálmabókarútgáfa var 1945. Þar túlkaði nefndin x-ið við skírnarsálminn sem svo að Valdimar hefði þýtt hann, en vissi ekki hvaðan, og þess vegna stendur þar frumsálmur óþekktur.

Það var svo séra Sigurjón Guðjónsson í Saurbæ, helsti sálmasérfræðingur 20. aldar, sem gerði grein fyrir uppruna sálmsins í rannsóknum sínum á sálmasögu og tengslunum við séra Ólaf í Sauðanesi. Hefur því beggja höfunda verið getið síðan í 4. prentun þeirrar bókar 1965 og í öllum sálmabókum síðan.“

Sálmur Ólafs var sex erindi og birtist í Sálmabók Guðbrands 1589, og síðan í öllum sálmabókum og Gröllurum á 17. og 18 öld, þangað til Magnús Stephensen breytti honum í Leirgerði 1801. Hann vildi ekki hafa „engla“ í öðru versi hér fyrir neðan og setti í staðinn: „Ætíð hlíf því með aðstoð þín“. Og síðan hefur hann í lokaversinu, – „og er þá farinn að nálgast Valdimar“:

Og lifi svo í heimi hér

að himneska fái dýrð með þér.

Þrjú síðustu erindi Ólafs, sem Valdimar umorti, eru svona í Grallaranum;

Þetta barn þér befalað sé

blíði Jesú vor lausnari,

í þína kristni það innleið

þyrm og frelsa frá allri neyð.

Ætíð hlíf því með englum þín

frá ólukku slys og pín.

Með þinni ást og mildri náð

miskunna því og blessa það.

Veit því með aldri vöxt og spekt

að verði hlýðið þér og þekkt.

Og lifi hér heilaglega

hjá þér síðar ævinlega. Amen.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is