Alltaf í stuði Meðlimir FM Belfast bregða ljúflega á leik...
Alltaf í stuði Meðlimir FM Belfast bregða ljúflega á leik...
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is „Við viljum alls ekki halda því fram að platan sé dauð sem fyrirbæri. En við í hljómsveitinni höfum rætt það að gefa út allar smáskífurnar fyrst áður en við gefum út plöturnar.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Við viljum alls ekki halda því fram að platan sé dauð sem fyrirbæri. En við í hljómsveitinni höfum rætt það að gefa út allar smáskífurnar fyrst áður en við gefum út plöturnar. Ég veit ekkert um það hvort aðrar hljómsveitir séu að hugsa það sama,“ segir Árni Stefánsson, meðlimur hljómsveitarinnar FM Belfast. „Með þessu móti öðlast hvert lag sitt sjálfstæða líf og er ekki háð einhverri heild þótt okkur finnist það líka skemmtilegt. Okkur hefur lengi langað til að gera þetta á þennan hátt og satt best að segja veit ég ekki af hverju við erum ekki þegar búin að því.“

Árni viðurkennir að plötusala sé einungis lítill hluti af tekjuöflun hljómsveitarinnar. Flestar hljómsveitir í dag þurfi að vera klókar og hugmyndaríkar til að hafa í sig og á.

Vægi plötusölu

„Tekjur hljómsveita í dag koma aðeins af plötusölu að hluta til. Annað kemur úr sölu á lögum í sjónvarpsþætti eða auglýsingar og tónleikahaldi. Vægi plötusölu er því bara hluti af okkar tekjuöflun,“ segir Árni.

FM Belfast mun gefa út nýja smáskífu á næstunni. Hún ber nafnið Delorean. Árni er spenntur að sjá móttökur nýju smáskífunnar. „Við ætlum að fylgja henni eftir með myndbandi og okkur finnst mjög skemmtilegt að geta gert hverju lagi svona góð skil,“ segir Árni.

Hljómsveitin spilaði á Nasa í vikunni við góðar undirtektir en hún hefur örlítið hægt á sér að undanförnu. Ástæðan er barneignir en sjálfur varð Árni faðir í fyrsta sinn fyrir um þremur mánuðum. „Barneignir taka sinn tíma og það hefur kosti og galla að vera tónlistarmaður þegar kemur að þessu eins og öðru. Maður er mikið frá en svo getur maður líka verið mikið heima við þess á milli,“ segir Árni. Aðrir hljómsveitarmeðlimir í FM Belfast, Árni Rúnar Hlöðversson og Lóa Hjálmtýsdóttir, eiga von á sínu fyrsta barni í júlí. FM Belfast hefur gefið út tvær breiðskífur, How to make friends sem kom út haustið 2008 og Don't want to sleep í júní 2011. How to make friends kom út í Evrópu vorið 2010 á vegum þýsku plötuútgáfunnar Morr Music.