Páll Indriðason fæddist á Botni í Eyjafirði 26. júlí 1923. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi 31. mars 2012.

Útför Páls fór fram frá Akraneskirkju 11. apríl 2012.

Þá er komið að kveðjustund, elsku afi minn. Að vita að þú ert kominn á góðan stað hjá elsku ömmu huggar mig. Þær eru ófáar minningarnar sem ég á um þig, minningar sem ég hef rifjað upp undanfarnar vikur er ég fékk að vera hjá þér þessa síðustu daga. Það er rosalega erfitt að þurfa að kveðja svona yndislegan mann eins og þig, elsku afi minn. Þín verður sárt saknað en vel minnst.

Fel þú, Guð, í faðminn þinn,

fúslega hann afa minn.

Ljáðu honum ljósið bjarta,

lofaðu hann af öllu hjarta.

Leggðu yfir hann blessun þína,

berðu honum kveðju mína.

(LEK)

Maríanna Pálsdóttir.

Það er sárt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur, elsku afi. Ég veit að þér líður betur núna eftir erfið veikindi og að amma hefur tekið vel á móti þér.

Ég á svo margar góðar minningar um þig, elsku afi. Ég mun aldrei gleyma því þegar þið amma komuð í heimsókn til okkar til Lúxemborgar um jólin. Það var svo mikill spenningur hjá okkur systrum að fá afa og ömmu af Skaganum til að eyða jólunum með okkur. Ég tala nú ekki um að fá grænan ópal, prins póló og mysing sem þið amma komuð alltaf með til að gefa okkur. Þið voruð svo dugleg að ferðast til að heimsækja okkur, meira segja komuð þið alla leið til Miami til að vera með okkur fjölskyldunni.

Einnig man ég svo vel eftir því hvað það var mikill spenningur að koma til Íslands á sumrin og fara til ömmu og afa og leika sér á Vesturgötunni. Alltaf stóðst þú, afi minn, með bros á vör á bryggjunni að taka á móti okkur þegar við systur komum úr Akraborginni. Það var svo gaman að sjá þig og rauðu Löduna á bryggjunni. Ég gleymi því ekki hvað mér fannst gaman að fara í vinnuherbergið þitt á Vesturgötunni því þar var margt hægt að föndra úr bókbandsefninu þínu, ævintýraheimur fyrir litlar skottur. Ógleymanlegar eru svo stundirnar uppi í Pálsbæ með þér og ömmu.

Þú kallaðir mig oft Hrafnhettuna þína því ég var með svo svart hár og dökk augu þegar ég var lítil, mér þótti vænt um það. Elsku besti afi minn, ég mun aldrei nokkurn tímann gleyma þér.

Guðrún Sigríður Jónsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
„Ber er hver að baki, nema sér bróður eigi.“
Mig vantar orð til að þakka alla umhyggju og gerðir í minn garð í gegnum árin Palli minn.
Þín systir,
Sigurlaug Indriðadóttir.