Silfraður Vænn sjóbirtingur í höndum veiðimanns við Tungulæk. Eins og síðustu ár hefur veiðin þar verið góð.
Silfraður Vænn sjóbirtingur í höndum veiðimanns við Tungulæk. Eins og síðustu ár hefur veiðin þar verið góð. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Veiði hófst í Litluá í Kelduhverfi 1.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Veiði hófst í Litluá í Kelduhverfi 1. apríl síðastliðinn, eins og víðar þar sem von er á sjóbirtingi, og segir Sturla Sigtryggsson í Keldunesi, sem þjónustar veiðimenn, að veiðin hafi verið frábær í vor þrátt fyrir kulda. Þar hjálpar hvað áin er heit, 16 til 17 gráður þar sem hún rennur úr Skjálftavatni.

„Það hefur verið mikil veiði, búið er að skrá um 720 fiska til bókar. Það er mjög gott,“ segir Sturla. „Síðasta holl fékk 163 fiska á fjórum dögum, þar af voru 105 yfir 50 cm, 40 yfir 60 cm og 10 yfir 70 cm. Sá stærsti í vor mældist 77,5 cm. Þetta er bæði sjóbirtingur og staðbundinn urriði og einnig nokkuð af bleikju.“

Sturla segir veiðina aldrei fyrr hafa verið þetta góða í Litluá í apríl. „Í fyrra veiddust 380 fiskar en þrátt fyrir að veitt hafi verið fleiri stangardaga þegar núna en allan aprílmánuð í fyrra, þá er nærri helmingi meiri veiði á stöng í ár og fiskurinn er verulega stærri.“

Í Litluá hefur verið veitt og sleppt í tólf ár en þótt stofnarnir hafi styrkst síðan hafa heimamenn aldrei séð jafn stórt stökk hvað stærð fiskanna varðar og nú.

„Við merktum 20 fiska í mars og hefur aðeins einn þeirra veiðst. Það segir manni að töluvert sé af fiski í ánni, fyrst aðeins einn merktur hafi verið meðal þessarra 720. Þetta lítur mjög vel út,“ segir Sturla og spáir frábærri veiði nyrðra þegar tekur að hlýna, en lofthitinn hefur varla farið yfir tvær, þrjár gráður yfir hádaginn í apríl.

Kropp í vötnum við borgina

Veiði hófst í Elliðavatni á sumardaginn fyrsta. Færri veiðimenn þöndu sig þar í morgunkulinu en oft gerðist hér áður fyrr, þegar vatnið var opnað fyrir veiði 1. maí, en þeir sem reyndu fengu sumir stöku fiska þegar aðeins hlýnaði er leið á morguninn. Voru það einkum urriðar sem gáfu sig enda hefur bleikju fækkað stórum í Elliðavatni. Kropp hefur líka verið í Vífilstaðavatni, sem var opnað til veiði 1. apríl, og segja þeir sem stunda vatnið að bleikjan hafi verið heldur viljugri að taka nú en síðustu vor. Þá sé hún ágætlega haldin.

Samkvæmt vefmiðlinum Vötn og veiði hafa veiðimenn fengið ágæt skot á sjóbirtingsslóðum í Vestur-Skaftafellssýslu undanfarið en augljóst sé að sá fiskur sem enn sé í ánum sé að færa sig neðar í þær og undirbýr að ganga til hafs. Ágæt veiði hefur þannig verið í Eldvatni, í Tungulæk og Steinsmýrarvötnum, og fyrstu hollin í Vatnamótunum veiddu vel. Veiðimenn í síðasta holli þar urðu hinsvegar lítið varir en það þarf ekki að þýða að fiskur sé horfinn af svæðinu, enda birtingurinn dyntóttur með afbrigðum.

Stangaveiðifélag Reykjavíkur, sem er langfjölmennasta veiðifélag landsins, hefur flutt skrifstofu sína af Háleitisbraut í Elliðaárdalinn, á Rafstöðvarveg og er þar rétt við kunnan veiðistað, Ullarfoss í Elliðaánum, og í næsta nágrenni við laxateljarann sem margir kíkja á á sumrin. Haft er eftir Bjarna Júlíussyni formanni SVFR að félagið sé nú „komið heim“ en það var stofnað árið 1939 til þess að taka Elliðaárnar á leigu og hafa þær verið kjölfestan í starfi félagsins allar götur síðan.

LÓNIN FYRR Á YFIRFALL?

Mikið í uppistöðulónum

Í kjölfar heldur meiri snjóalaga á hálendinu í vetur en mörg undanfarin ár, og hlýinda af og til sem hafa valdið hressilegri bráðnun, mun talsvert meira vatn hafa safnast saman í uppistöðulónum á hálendinu en síðustu ár. Þannig mun vatnsborð vera hátt bæði í Hálslóni og Blöndulóni sem þýðir að árnar geti mögulega farið fyrr á yfirfall en síðustu sumur. Að sögn kunnugra kann það að hafa áhrif á laxveiðina í Blöndu og Jöklu í sumar.