Atli Hraunfjörð fæddist í Reykjavík 5. júlí 1941. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 28. mars 2012.

Jarðarför Atla fór fram frá Digraneskirkju 4. apríl 2012.

Atli Hraunfjörð lést 28. mars eftir margra ára hrakandi heilsu. Eftir þrautir af hjartveiki og Parkinson fékk hann heilablóðfall sem svipti hann miklum samskiptamöguleikum við umhverfið. Hann hafði þó fótavist og hafði ánægju af því að hitta fólk og hlusta á samræður, en átti erfitt með að tjá sig. Slíkt hlýtur að vera þungt fyrir opinn og glaðsinna mann, sem hefur jafnvel skýra hugsun, að geta illa tekið þátt í samræðum.

Við Atli kynntumst þegar sonur minn og dóttir hans gengu í hjónaband, stofnuðu heimili og tóku til að eignast mannvænleg börn. Það var okkur Atla skiljanlega ánægja að fylgjast með framþróun litlu fjölskyldunnar og þroska barnanna, sem nú eru að verða fulltíða fólk. Barnalánið varð sem best verður á kosið og við Atli vorum auðvitað rígmontnir með okkar framlag. Hann var meiri afi en ég og sinnti afkomendum okkar betur, sem greinilega létu sér mjög annt um hann til æviloka. Og ekki var hún Sigríður konan hans minni amma barnanna en hann var afi.

Óhjákvæmilega kynntumst við Atli allnokkuð þegar árin liðu. Við áttum margar góðar samræður. Atli þekkti margt sem mér var hulið. Hann var Nýalssinni og útskýrði kenningar dr. Helga Pjeturss fyrir mér af mikilli þekkingu. Minnist ég þeirra stunda hlýlega. Atli var fjölfróður og víðlesinn og samræður okkar bárust um heima og geima. Ég held að Atli hafi verið listamannssál að innri gerð. Hann orti mikið af tækifærisljóðum og lagði á margt gjörva hönd.

Sem málarameistari kom Atli fram í auglýsingakvikmyndum í gamla daga. Þegar maður hugsar til þess léttleika sem þá einkenndi hinn röska mann við fulla heilsu, þá koma í hugann orð séra Hallgríms, um blómstrið eina, sem upp vex á sléttri grund.

Svo stutt er þetta líf og gæfan stopul, að margir kunna ekki að lifa því fyrr en það er um seinan eins og hún amma mín Sigríður orðaði það í kör sinni. Það er þungt að horfa upp á slík hamskipti lífsins hjá ástvinum hjálparlaus og geta engu breytt. Ekkert fær keypt glataða heilsu til baka og ekkert stoðar að kvarta yfir ósanngirni lífsins. Við erum svo máttvana þegar í grunninn er gætt. Þetta skildi séra. Hallgrímur manna best úr sínu lífi. Myndlíking hans hér að framan hefur fylgt þessari þjóð alla tíð frá vöggu til grafar. „Afskorið verður fljótt“.

„Ég hefi nú ráðið gátuna.. Eðli drauma er mér nú kunnugt orðið. Mér er það alveg ljóst, að ég skipti um meðvitund, þegar ég vakna. Í svefni fæ ég þátt í lífi einhvers annars. “

Með þessum orðum dr. Helga Pjeturss vil ég kveðja Atla Hraunfjörð. Hvort sem við vökum eða sofum eru kraftar að verki sem við þekkjum ekki. Ef til vill kynnumst við þeim síðar lífs eða liðin. Og það er ávallt gott að eiga sér drauma um hið góða í lífinu. Mörgum draumum varð Atli Hraunfjörð af vegna heilsubrests. Nú sefur hann í draumi fjölskyldunnar.

Við minnumst hans í blóma lífsins, meðalhás og réttholda fríðleiksmanns, sem var góðglettinn og hispurslaus í framkomu, reglumaður, bóngóður og brosmildur höfðingi.

Veri hann ávallt sæll.

Halldór Jónsson.