Gunnar Gíslason fæddist á Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal 14. mars 1935. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeildinni í Kópavogi 3. apríl 2012.

Útför Gunnars fór fram 13. apríl 2012 frá Fella- og Hólakirkju.

Kæri mágur minn.

Gunnar Gíslason lést á líknardeild Landspítalans eftir áralanga baráttu við illvígan sjúkdóm.

Gunnar kom ungur maður austur á firði frá Flateyri við Önundarfjörð þar sem hann fæddist og ólst upp í stórum systkinahópi. Það fór svo að hann ílentist á Eskifirði. Þar kynntist hann einni systur minni, Hólmfríði Maríu (kölluð Gógó), þau felldu hugi saman og það endaði með giftingu og búskap.

Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn, Ingigerði, Sigurþór og Hörpu Rún sem býr á Ítalíu en hin í Reykjavík.

Þegar Gunnar kom austur vann hann við línulagnir hjá Snæfelli hf. en snéri sér fljótlega að sjómennskunni á bátum og togurum og gerðist fljótlega matsveinn sem varð hans ævistarf. Gunnar og Gógó voru samhent og samtaka í sínum búskap enda búnaðist þeim vel. Árin 1964 byggðu þau sér hús á Steinholtsvegi 1 og bjuggu þar alla tíð síðan. Það var tekið til þess hvað þau hugsuðu vel um húsið bæði úti og inni og eins lóðina, þar var alltaf í toppstandi hjá þeim. Gunnar var myndarlegur maður og geðgóður, hafði gaman af að spjalla um menn og málefni, og var ævinlega stutt í grínið.

Nú kveðjum við góðan dreng og þökkum samfylgdina. Guð blessi hann.

Jónas G. Sigurðsson.