Jón Baldur Lorange
Jón Baldur Lorange
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jón Baldur Lorange og Áskel Þórisson: "Vandaðar úttektir hafa verið gerðar á áhrifum aðildar á íslenskan landbúnað. Þetta eru svartar skýrslur og niðurstöðurnar hrollvekjandi."

Áhugi Evrópusambandsins – ESB – á því að kynna sig meðal Íslendinga er ótvíræður. Það er búið að opna skrifstofu í Reykjavík, Evrópustofu, sendinefnd ESB á Íslandi er tekin til starfa og búið er að ráða þekkt kynningarfyrirtæki, Athygli, sem hefur mikla þekkingu á Íslendingum og íslensku þjóðlífi, til að koma boðskapnum til skila. Mikil fagmennska svífur yfir kynningarvötnum Evrópusambandsins enda sitja engir amlóðar við árarnar ytra og hér heima og fjármunir eru ekki af skornum skammti.

Hvers vegna hefur ESB áhuga á Íslandi?

Nú er það vitað að afar margir eru andsnúnir aðild ESB, og hefur sú andstaða frekar vaxið en hitt. Andstæðingar aðildar hafa sýnt fram á það með haldbærum rökum að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að gerast aðili að Evrópusambandinu í bráð og lengd. En áhugi sambandsins á Íslandi er aftur á móti allrar athygli verður. Í því sambandi er rétt að minna á auðug fiskimið í íslensku fiskveiðilögsögunni, hreint vatn og aðgengi og siglingarleiðir á Norðurslóðum.

Afurðasölufyrirtæki fara illa út úr aðild

Vandaðar úttektir hafa verið gerðar á áhrifum aðildar á íslenskan landbúnað. Þetta eru svartar skýrslur og niðurstöðurnar hrollvekjandi. Þær sem lengst ganga lýsa algjöru hruni íslensks landbúnaðar í núverandi mynd og til þess að afar erfiðir tímar blasi við íslenskum landbúnaði eftir aðild. Sérstaklega má gera ráð fyrir að afurðasölufyrirtæki fari illa út úr aðild og störf tengd landbúnaði í úrvinnslu muni eiga mjög undir högg að sækja.

Þá eru íslensku búfjárstofnarnir, sem Íslendingar hafa nýtt og verndað frá landnámi, í verulegri hættu, m.a. vegna skýlausrar kröfu ESB um innflutning á lifandi dýrum.

Þúsundir starfa eru í hættu

Bændasamtök Íslands hafa svo sannarlega staðið vaktina í baráttunni gegn aðild, en ein geta þau ekki til lengdar haldið uppi vörnum gegn ofureflinu. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði í ræðu við setningu Búnaðarþings 2012, að um tólf þúsund störf væru með beinum hætti tengd landbúnaði – en líklega væru störfin um fimmtán þúsund og veltan 130 milljarðar á ári.

Framkvæmdastjórar afurðasölufyrirtækja og stjórnarmenn þeirra verða að bíta í skjaldarrendur og gera sínu fólki grein fyrir framtíðinni: að veruleg hætta vofir yfir íslensku atvinnulífi – þeirra eigin fyrirtækjum – ef fram heldur sem horfir. Þeir sem stýra afurðasölufyrirtækjunum vita hvað mun gerast ef ESB-aðild verður að veruleika og þeir eiga að gera starfsmönnum grein fyrir líklegri framtíð. Minnumst þess að stærstu fyrirtækin í matvælaframleiðslu eru í Reykjavik, á Akureyri, Selfossi og Sauðárkróki svo nokkrir staðir séu nefndir.

Ný upplýsingaþjónusta

Greinarhöfundar hvetja þá, sem ættu að vera fremstir í flokki við að upplýsa umbjóðendur sína um áhrif aðildar að Evrópusambandinu, til að taka nú á stóra sínum meðan enn er tækifæri til þess. Bændur og fulltrúar þeirra í fyrirtækjum og stofnunum þurfa einnig að láta í sér heyra í ræðu og riti, í fjölmiðlum og í netheimum.

Hér er lagt til að ígildi Upplýsingaþjónustu landbúnaðarins verði sett á fót án tafar. Fyrir þá sem ekki muna þá var eitt sinn til samvinnuverkefni sem hét þessu nafni. Að starfseminni komu margir aðilar sem áttu sterk tengsl við landbúnaðinn og höfðu beina eða óbeina hagsmuni af því að íslenskur landbúnaður blómstraði um allt land.

Samvinna við sjávarútveg?

Sjávarútvegurinn hefur einnig átt undir högg að sækja í umræðunni að undanförnu. Sjómenn og útgerðarmenn hafa mátt sín lítils gegn markvissum áróðri úr ýmsum áttum. Við veltum því upp hvort hægt væri að útvíkka hugmyndina að stofnun upplýsingaþjónustu þannig að hún þjóni bæði sjávarútvegi og landbúnaði, þessum tveimur frumatvinnugreinum þjóðarinnar. Hagsmunir þessara atvinnuvega, þúsunda Íslendinga og þjóðarinnar allrar í bráð og lengd eru í því að upplýsa almenning um hvaða áhrif aðild að Evrópusambandinu hefði fyrir íslenska hagsmuni.

Við skorum hér með á bændur, fyrirtæki og félög þeirra og starfsfólk að taka til varna og skapa mótvægi við það öfluga kynningarstarf sem Evrópusambandið og aðildarsinnar hafa uppi í skjóli aðstöðu sinnar og ofgnóttar fjármagns – áður en það er um seinan. Við skorum jafnframt á þá sem ráða ríkjum innan sjávarútvegsins að taka höndum saman við íslenska bændur og fyrirtæki sem vinna úr íslenskum afurðum. Fæðuöryggi þjóðarinnar er í húfi, hvorki meira né minna. Sameinaðir geta þessir atvinnuvegir náð eyrum þjóðarinnar núna þegar á reynir sem aldrei fyrr.

Jón Baldur Lorange er stjórnmálafræðingur. Áskell Þórisson er blaðamaður.