Sveitastemning Hallfríður Ólafsdóttir, Nína Margrét Grímsdóttir, Eydís Franzdóttir og Ármann Helgason leika á 15:15 tónleikum á sunnudag.
Sveitastemning Hallfríður Ólafsdóttir, Nína Margrét Grímsdóttir, Eydís Franzdóttir og Ármann Helgason leika á 15:15 tónleikum á sunnudag. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Ensk og frönsk tónlist verður í hávegum á tónleikum í 15:15-syrpunni í Norræna húsinu á sunnudag kl. 15.15.

Ensk og frönsk tónlist verður í hávegum á tónleikum í 15:15-syrpunni í Norræna húsinu á sunnudag kl. 15.15. Flytjendur eru Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari, Eydís Franzdóttir óbóleikari, Ármann Helgason klarínettuleikari og Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari og á efnisskránni verk eftir Eugéne Goossens, William Hurlstone, Madeleine Dring og Camille Saint-Saëns.

Verk ensku tónskáldanna eru sjaldheyrð hér á landi, en í kynnngu tónleikanna segir að þau séu létt og skemmtileg áheyrnar. „Hröðu þættirnir einkennast af sveiflandi danstöktum og miklum glæsileika í andstöðu við syngjandi lagræna þætti þar sem sveitastemning ríkir.“

Eugéne Goossens, sem lést 1962, var eftirsóttur sem tónskáld og hljómsveitarstjóri og starfaði meðal annars á Bretlandi, í Bandaríkjunum og Ástralíu, William Hurlstone, sem lést aðeins þrítugur 1906, þótti eitt efnilegasta tónskáld síns tíma og eftir hann liggja allmörg hljómsveitarverk, og Madeleine Dring, sem lést 1977, hefur oft verið líkt við George Gershwin. Camille Saint-Saëns, sem lést 1921, er svo eitt af þekktustu tónskáldum Frakka og samdi tónlist af öllu tagi, stór og smá verk.