Camilla Sigmundsdóttir fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 5. ágúst 1917. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar 14. apríl 2012.

Foreldrar Camillu voru Fríða Jóhannesdóttir, f. á Þingeyri 14.1. 1893, d. 2.1. 1978, og Sigmundur Jónsson, f. á Ingjaldssandi 24.9. 1886, d. 12.12. 1974. Systkini Camillu voru 1) Inga Proppé, f. 17.12. 1912, d. 31.8. 1997, gift Edward Proppé, f. 4.3. 1911, d. 22.10. 1965, 2) Þórður, f. 13.5. 1915, d. 4.11. 1974, kvæntur Hönnu Fanneyju Proppé, f. 25.11. 1917, d. 7.11. 1980, 3) Hulda, f. 29.6. 1923, d. 23.8. 2007, gift Árna Stefánssyni, f. 23.3. 1915, d. 20.3. 1972, 4) Haraldur, f. 21.4. 1928, d. 13.10. 1993, kvæntur Halldóru Þórhallsdóttur, f. 7.7. 1934, býr í Reykjavík.

Camilla giftist 20.6. 1942 Matthíasi Guðmundssyni vélsmið á Þingeyri, f. 16.9. 1911, d. 3.6. 1995. Foreldrar hans voru Estíva S. Björnsdóttir, húsfreyja og kaupmaður, f. 1.11. 1880, d. 31.8.1943 og Guðmundur Jón Sigurðsson vélsmiður, f. 13.9. 1884, d. 19.12. 1973.

Camilla og Matthías bjuggu allan sinn búskap á Þingeyri. Börn þeirra eru: 1) Jónas Matthíasson, búsettur í Hafnarfirði, kvæntur Guðbjörgu Þorbjarnardóttur og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn. 2) Gerður Matthíasdóttir, búsett á Selfossi, gift Ólafi Bjarnasyni og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn. 3) Guðmundur Jón Matthíasson, búsettur í Reykjavík, kvæntur Margréti Jónsdóttur og eiga þau tvo syni og þrjú barnabörn.

Camilla nam hússtjórnarfræði við Kvennaskólann í Reykjavík veturinn 1935-1936 og veturinn eftir var hún við nám á saumaverkstæði í Reykjavík. Camilla var í kirkjukórnum á Þingeyri frá unga aldri og var heiðruð fyrir áratugalangt framlag sitt til kórsins, einnig var hún félagi í Rauðakrossdeild Dýrafjarðar.

Hennar aðalstarf var húsmóðurstarfið sem var erilsamt á mannmörgu og gestkvæmu heimili, sérstaklega á árum áður þegar mikil starfsemi fylgdi vélsmiðju GJS á Þingeyri sem var fjölskyldufyrirtækið. Því starfi sinnti Camilla af mikilli alúð og myndarskap og rómuð heim að sækja.

Eftir að Camilla missti mann sinn árið 1995 hélt hún ótrauð áfram endurbótum á stóru húsi þeirra hjóna sem þau höfðu hafið nokkrum árum áður, sem er að sönnu bæjarprýði í dag. Hún ferðaðist talsvert eftir að hún varð ekkja, heimsótti börn sín jafnan suður á land um jól og áramót og eina ferð fór hún til Kanada með syni sínum og tengdadóttur, en þar átti hún mágkonu.

Síðastliðin tíu ár hefur hún búið á dvalarheimilinu Tjörn á Þingeyri við gott atlæti og umönnun.

Útför Camillu fer fram frá Þingeyrarkirkju á morgun, sunnudaginn 22. apríl 2012, og hefst athöfnin kl. 11.

Ferð þín er hafin.

Fjarlægjast heimatún.

Nú fylgir þú vötnum

sem falla til nýrra staða

og sjónhringar nýir

sindra þér fyrir augum.

(Hannes Pétursson)

Mig langar að minnast tengdamóður minnar, Camillu Sigmundsdóttur, með örfáum orðum.

Milla, eins og hún var ætíð kölluð, fæddist á Þingeyri og þar ól hún sinn aldur alla tíð fyrir utan vetur í hússtjórnunarskóla Kvennaskólans í Reykjavík . Síðustu æviárin dvaldi hún við gott atlæti á dvalarheimilinu Tjörn á Þingeyri. Milla var glæsileg kona og hélt reisn sinni allt fram á síðustu æviár. Hún var söngelsk og hafði fallega sópranrödd; söng í kirkjukór Þingeyrar frá 13 ára aldri fram á níræðisaldur.

Það var gaman að hlusta á þau hjónin, Matthías að spila á orgelið, og hana að syngja með, milli þess sem hún fór fram að hræra í pottunum, og var þá oft glatt á hjalla. Hún hafði gaman af að taka á móti gestum og hvergi fékk maður betri mat en hjá henni. Húsið á Þingeyri er stórt og glæsilegt, þar stjórnaði Milla af miklum skörungsskap. Hún gat verið snögg upp á lagið og lá ekki á skoðun sinni; lét mann stundum heyra það hispurslaust. Í minningunni geymum við mörg skondin og skemmtileg tilsvör frá henni.

Þó svo að Milla hafi hvergi viljað vera annarstaðar en á Þingeyri, hafði hún gaman af að ferðast. Hún heimsótti jafnan börnin sín meðan heilsan leyfði, t.d. um jól og dvaldi þá fram eftir vetri. Hún passaði upp á að gera ekki upp á milli þeirra og dvaldi jafnt á hverjum stað. Þannig var Milla í raun, bæði réttsýn og gjafmild. Þegar hún varð áttræð kom hún með okkur Jónasi til Vancouver í Canada. Hún hafði mjög gaman af þeirri ferð og talaði oft um hana við okkur. Áður höfðu þau hjónin farið þangað í tvígang að heimsækja systur Matthíasar.

Ég er henni þakklát fyrir að lofa Matthíasi mínum að vera hjá sér nokkur sumur á Þingeyri, hann á góðar minningar frá þeim tíma. Starfsfólki Tjarnar sendi ég bestu þakkir fyrir umönnunina og Nönnu sérstakar þakkir fyrir einstaka elskusemi við hana.

Að lokum vil ég þakka Millu samfylgdina í gegnum árin. Blessuð sé minning Camillu Sigmundsdóttur.

Guðbjörg Þorbjarnardóttir.

Camilla Sigmundsdóttir, tengdamóðir mín, er nú látin á 95. aldursári. Við þessi tímamót reikar hugurinn til baka. Mér finnst einhvern veginn að ég hafi þekkt hana alla tíð, enda var ég að hluta til alinn upp hjá móðursystrum mínum í næsta húsi við heimili Camillu á Þingeyri. Þegar ég var á 10. aldursári fékk ég þann starfa hjá Símstöðinni á Þingeyri að bera út skeyti og sækja fólk í síma. Þá kom stundum fyrir að fara þurfti með skeyti í Vélsmiðjuna og var mér uppálagt að afhenda skeytið annaðhvort Guðmundi eða Matthíasi syni hans og taka kvittun til baka. Þetta var níu ára gömlum dreng nánast ofraun, því maður vissi eiginlega aldrei hvernig maður hitti á þá smiðjufeðga, gátu verið önnum kafnir og höfðu lítinn tíma til að sinna sendlinum frá Símstöðinni. Ég hugsaði málið og taldi að e.t.v. væri bara betra að fara með skeytin heim til Millu. Hún tók mér ljúfmannlega og skildi nákvæmlega hvað ég var að fara er ég sagði henni frá samskiptum mínum við forráðamenn Smiðjunnar. Þarna má segja að kynni okkar hafi hafist, kynni sem aldrei bar neinn skugga á í meira en fimm áratugi.

Hennar stóra hlutverk í lífinu var að sinna húsmóðurhlutverkinu. Hún ólst upp á myndarlegu og umsvifamiklu heimili í Sigmundarhúsinu á Þingeyri. Þaðan kom hún með notadrjúga reynslu sem hún nýtti við mótun eigin heimilis með manni sínum og þremur börnum. Einnig voru á heimilinu í byrjun tengdaforeldrar hennar og síðan tengdafaðir í nokkra áratugi. Á heimilinu var öryggi, samvera og hlýja ríkjandi og engum duldist að þar var Camilla burðarásinn. Húsmóðurstarfið á heimilinu gat verið erilsamt. Á fyrstu árum Camillu í Estívuhúsi var ekki bara fjölskyldan sem þurfti að sinna, heldur voru lærlingar í Smiðjunni líka í fæði á heimilinu. Einnig rak Matthías iðnskóla í um tvo áratugi uppá lofti í tveimur herberjum. Dagsverk hennar gat því oft orðið nokkuð langt. Hún var með þeim fyrstu upp á morgnana og gat verið enn að seint á kvöldin þegar aðrir höfðu tekið á sig náðir. Hún hafði mikla ánægju af því að taka á móti gestum. Hún eldaði góðan mat og þeim sem gestrisni hennar nutu ber saman um hve gott var að koma til þeirra hjón og njóta samvista við þau.

Ég heillaðist fljótt af tengdamóður minni. Það sem ég kunni best að meta í fari hennar var hreinskilnin, ósérhlífnin og umhyggjan fyrir fjölskyldu sinni. Hún lá ekkert á skoðunum sínum, sagði hlutina tæpitungulaust og stóð fast á sínu. Hún var alla tíð í góðu sambandi við börn sín og barnabörn. Eftir að við fluttum suður á land kom oft pakki að vestan með einhverju góðgæti. Minnist ég sérstaklega hangikjötsins fyrir jólin og harðfisksins á þorranum.

Camilla var mjög félagslynd og t.d. söng hún í kirkjukór Þingeyrar frá 13 ára aldri og fram undir nírætt. Hún sótti allar uppákomur í þorpinu, hjónaböll, þorraablót, tónleika o.þ.h. meðan heilsan leyfði.

Tengdamóðir mín hafði margvísleg áhrif á mig. Ég votta henni virðingu mína og þakka fyrir vináttu og farsæla samfylgd í marga áratugi.

Ólafur Bjarnason.

Kveðja til elskulegrar tengdamóður.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur.

Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Vald. Briem)

Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir hlýhug, ræktarsemi og elska, sem þú sýndir mér og fjölskyldunni.

Þín tengdadóttir,

Margrét.

Langri vegferð er lokið. Amma mín er látin. Þó að vitað hafi verið að hverju stefndi, er það ekkert betra. Tilfinningin er sú sama. Suma vill maður alltaf hafa hjá sér. Ég var skírð í höfuðið á henni ömmu og bjó á heimili hennar fyrstu árin. Seinna dvaldi ég á hverju sumri hjá ömmu og afa bæði við leik og störf. Á Þingeyri var gott og gaman að vera.

Amma mín var einstök kona og engin lognmolla í kringum hana. Alltaf var mikið að gerast á heimilinu hvort sem það vorum við barnabörnin sem fengu að vera yfir sumartímann, eða gestir sem komu til að hitta afa í smiðjunni. Ömmu féll aldrei verk úr hendi. Seinna þegar ég stofnaði sjálf heimili voru ófáar sendingarnar sem komu að vestan með ýmsu góðgæti eins og harðfiski, sælgæti og hafrakexinu sem hún bakaði. Þannig var amma, alltaf að hugsa um aðra.

Amma var trúuð kona og hafði mikið dálæti á kirkjunni á Þingeyri og söng í kirkjukórnum í mörg ár. Ég deildi þessum áhuga á kórsöng og voru mörg símtölin á milli okkar þar sem rætt var um hina og þessa sálma og þeir jafnvel sungnir í gegnum símann. Amma hafði góða kímnigáfu og gott dæmi um það er þegar við létum skíra dóttur okkar á afmælisdegi ömmu og hún því beðin að halda barninu undir skírn. Rétt fyrir athöfn sagði ég henni hvað barnið ætti að heita. Þá sagði hún: „Milla mín, nú hefur þú gefið mér það vald, að ef mér líkar ekki nafnið þá segi ég bara eitthvert annað nafn sem mér finnst fallegra.“ Svo hló hún.

Nú er komið að leiðarlokum og blessuð amma hefur fengið hvíldina. Ég efast ekki um það, að afi hefur tekið fagnandi á móti henni.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Sólin til fjalla fljótt

fer að sjóndeildarhring.

Tekur að nálgast nótt,

neyðin er allt um kring

Dimmt er í heimi hér,

hættur er vegurinn

Ljósið þitt lýsi mér

lifandi Jesú minn.

(Hallgrímur Pétursson)

Camilla Guðmunda.

Elskuleg frænka mín og vinkona er fallin frá. Hún var svo stór partur af fjölskyldu minni á Þingeyri, hún Milla, allt frá því ég var smástelpa á Ísafirði er þessi unga glæsidama kom til okkar og saumaði á mig fína kjóla. Hún móðir mín var ekki mjög mannblendin, en Milla létti allra lund og móðir mín fékk ekki bara saumaða kjóla á dótturina heldur, eins hún sagði sjálf, skemmtilegan „selskap“. Síðar fórum við hjónin vestur með syni og pabba minn en þá voru nú flestir fallnir frá nema Milla og Matthías sem auðvitað voru á staðnum. Vantaði ekkert upp á móttökur þar. Ennþá síðar héldum við myndarlegt ættarmót á Núpi og við Milla dönsuðum saman og mátti sú yngri hafa sig alla við, sjaldan hefur mér ákveðnari partner stýrt um dansgólfið.

Nú er hún fallin frá, þessi elska, hún var bæði skemmtileg og góð, hún frænka mín, en hvíldinni geri ég ráð fyrir að hún hafi verið fegin, blessunin.

Föður mínum voru þessi systurbörn mjög kær og reyndar öll fjölskyldan þar, en þar voru bræður hans og nærskyldfólk flest lengst af búsett. Gerður frænka mín lét mig strax frétta af andlátinu og hefur sýnt mér sérstaka elskusemi og bið ég hana fyrir hjartanlegar samúðarkveðjur Millu yngri, bræðra hennar, eiginmanns og allrar fjölskyldunnar.

Lilja Helga Gunnarsdóttir.

Okkur systkinin langar til að minnast móðursystur okkar, hennar Millu systur, eins og Hulda mamma okkar kallaði hana alltaf og við stundum líka. Hún varð elst og lifði lengst af börnum Sigmundar Jónssonar og Fríðu Jóhannesardóttur. Hún var fædd 1917 og hefði því orðið 95 ára í sumar. Mikill samgangur var milli fjölskyldnanna þegar við vorum börn og þær systur hjálpuðust mikið að. Milla aðstoðaði móður okkar við hreingerningar sem þá voru fastur liður fyrir jól og að vori en móðir okkar saumaði fyrir hana. Hvorki baðkar né sturta var í húsinu sem við ólumst upp í og það var fastur liður að fara í gamla baðið í Estívuhúsi eins og heimili Millu var oft kallað. Einnig var einn dagur í mánuði þvottadagur hjá móður okkar og kom sér þá vel að hafa aðgang að stóra þvottahúsinu hennar Millu en þar var risastór suðupottur kyntur með kolum og þvottavél með vindu, sem var mikið þarfaþing. Eftir að þvegið hafði verið var þvotturinn hengdur í stóra hjallinn hjá Millu.

Eftir að faðir okkar dó og mamma varð ekkja og við vorum flutt frá Þingeyri hélst áfram mjög gott samband á milli mömmu og þeirra hjóna Matta og Millu. Síðar þegar mamma var flutt suður og við komum vestur með hana voru alltaf haldnar miklar veislur okkur og fjölskyldum okkar til heiðurs enda var Milla fræg fyrir gestrisni. Haft var á orði að hún leitaði uppi gesti ef hún vissi af góðum vinum á ferð um Dýrafjörðinn. Auðvitað var alltaf byrjað á sexara eins og tíðkaðist í Sigmundarhúsinu þegar afi var búinn að loka búðinni.

Á meðan Milla var við góða heilsu og rak sitt eigið heimili var notalegt að sitja í eldhúsinu hjá henni og spjalla. Alltaf þurfti hún að vita allt um okkar börn, hvar þau væru niðurkomin og hvað þau væru að fást við. Hún hafði sínar skoðanir á því og einlægan áhuga.

Á síðari árum eftir að heilsan fór að gefa sig og hún flutti á Tjörn tók Gerður dóttir hennar við veisluhaldinu og hefur heimsókn í Estívuhús verið fastur liður þegar við erum á ferð og tók Milla þátt í þeim meðan kraftar leyfðu. Stjórnaði hún þá hvaða borðbúnaður var valinn og hvernig steikurnar voru framreiddar.

Þegar við litum inn hjá henni á Tjörn spurði hún alltaf hvort við hefðum ekki fengið eitthvað ætt í Estívuhúsi.

Við sendum börnum hennar og ættingjum okkar innilegustu samúðarkveðjur og kveðjum með þakklæti og minnumst hjartagóðrar frænku, sem lét sér annt um okkur og okkar afkomendur.

Guðmundur og Erla.

Í dag verður frú Camilla Sigmundsdóttir jarðsungin frá Þingeyrarkirkju og lögð til hinstu hvílu í Þingeyrarkirkjugarði við hlið mannsins síns, Matthíasar Guðmundssonar vélsmiðs. Camilla var borinn og barnfæddur Þingeyringur og dvaldi þar alla sína daga.

Hún á ekki fá handtökin við umhirðu leiða í kirkjugarðinum og kirkjunni sinni þjónaði hún af trúmennsku nánast alla sína ævi, þar sem hún söng í kórnum á meðan hún gat staðið í fæturna. Þegar elskaður sóknarprestur varð fyrir snjóflóði og lést um miðjan vetur á fyrri hluta síðustu aldar, var lítið um blóm eða skreytingar fyrir útför hans.

Camilla bauð þá fram brúðarslörið sitt sem klippt var niður og útbjuggu þær Hanna Proppé úr því hin fegurstu blóm á kistuna. Þessi fallegi gjörningur þótti mínu fólki lýsandi fyrir innræti Camillu. Hún var bæði gjafmild, trygg og síþjónandi á meðan kraftar entust. Heimili Camillu og Matthíasar var mitt annað heimili á Þingeyri þegar ég var að alast upp, þar sem við Gerður dóttir þeirra erum jafnöldrur og bestu vinkonur. Camilla réð ríkjum á heimilinu og átti góðan bandamann í tengdaföður sínum Guðmundi J. Sigurðssyni sem þar bjó líka og tók þátt í uppeldi okkar barnanna. Hún tók starf húsmóðurinnar alvarlega og lagði sig fram um að hafa snyrtilegt og hreint í kringum sig.

Oft gustaði af henni og var hún ekkert að skafa utan af hlutunum þegar staðfastar meiningar voru annars vegar. Hjarta hússins var eldhúsið þar sem Milla töfraði fram gómsætar máltíðir, oft handa fjölda manns. Fyrir helgar voru alltaf bakaðar tertur og annað girnilegt kaffibrauð og ég, bakaríisbarnið setti mig sjaldan úr færi að lauma mér í sunnudagskaffi með fjölskyldunni. Oft fór það svo að ég borðaði með þeim líka, þannig að stundum fékk ég orð í eyra á mínu eigin heimili.

Ég leit alla tíð upp til Millu og hún hefur á svo margvíslegan hátt verið mér fyrirmynd í lífinu. Eftir að Matthías lést lét hún sig ekki muna um að leggja í stórframkvæmdir við húsið sitt, þótt komin væri af léttasta skeiði.

Þessi staðfasta kona sem nú er kvödd valdi að ljúka ævidögunum í heimahögunum sem voru henni svo kærir. Hún vildi ekki flytja suður, þrátt fyrir áeggjan barna sinna og kaus að bera beinin í Firðinum fagra. Alla tíð naut hún elskusemi Nönnu sem leit til með vinkonu sinni og gerði þar með börnum Camillu auðveldara að vita af henni einni á Þingeyri. Það voru mikil forréttindi að fá að alast upp með góðu fólki á Þingeyri. Margir eru þegar farnir yfir móðuna miklu og taka nú vel á móti Millu minni. Mér þykir ekki ólíklegt að Matthías sé við orgelið og þau Milla og Tómas taki lagið.

Við heimsóttum Camillu á Þingeyri nú á páskum. Það var næsta ljóst hvert stefndi. Greinilegt var að hún gladdist við að sjá dóttur sína Gerði og Ólaf tengdason sinn. Gerður settist við dánarbeð móður sinnar, strauk henni blíðlega um vanga og hóf að syngja. Að sjálfsögðu tók Milla undir: „Ég lít í anda liðna tíð... .“ Kveðjustund mæðgnanna var einstaklega hugljúf og falleg.

Megi Camilla hafa þökk fyrir allt.

Fríða Regína.