Mynd og hljóð Hvalur leikur listir sínar og þá er um að gera að vera snöggur með myndavélina. Í sumar geta ferðamenn einnig haft hljóð hans í farteskinu.
Mynd og hljóð Hvalur leikur listir sínar og þá er um að gera að vera snöggur með myndavélina. Í sumar geta ferðamenn einnig haft hljóð hans í farteskinu. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Söngur hvalanna í Skjálfandaflóa í bland við íslenska tónlist er á leiðinni á tölvudisk sem gæti orðið útflutningsvara. Einnig er unnið að gerð tölvuleiks um líf hvala á norðurslóðum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Söngur hvalanna í Skjálfandaflóa í bland við íslenska tónlist er á leiðinni á tölvudisk sem gæti orðið útflutningsvara. Einnig er unnið að gerð tölvuleiks um líf hvala á norðurslóðum. Það er doktorsneminn Edda Elísabet Magnúsdóttir, sem vinnur að þessum verkefnum, en hún hefur síðustu ár fylgst með hnúfubak og öðrum hvalategundum í Skjálfanda.

„Ég vildi gefa almenningi tækifæri til að hlusta á þessi hljóð og söng hvalanna,“ segir Edda. „Þessi vinna er enn á hönnunarstigi en vonandi tekst okkur að ná að framleiða vöru sem hægt verður að selja hvalaskoðendum og öðrum í sumar. Efnið verður á einhvers konar margmiðlunarformi með hvalahljóðum og útskýringum á því hvað við teljum að hljóðin þýði. Einnig er hópur þekktra, íslenskra tónlistarmanna að vinna að tónlist sem yrði notuð í bland við hvalahljóðin. Loks er fræðandi tölvuleikur um líf hvalanna með tilheyrandi hvalahljóðum í vinnslu.“

Vetrarsöngvar við makaleit

Edda Elísabet hefur tekið upp hljóð hnúfubaka og annarra hvala í Skjálfandaflóa allan ársins hring. Mestar upplýsingar hefur hún um hnúfubaka og er söngur þeirra kröftugastur yfir háveturinn. Að sumrinu eru hljóðin talin tengjast ýmissi félagslegri hegðun eins og samvinnu við fæðuöflun, en á tímabilinu frá desember og fram í mars er söngurinn talinn tengjast makaleit.

„Þegar líður að áramótum breytist hljóðmyndun þeirra í skipulagðari tónasamsetningu, sem hægt er að skilgreina sem lög eða söngva og þeir ágerast og verða fágaðri í febrúar og mars. Þessir vetrarsöngvar líkjast makaleitarsöngvum,“ sagði Edda í samtali við Tímarit Háskóla Íslands nýlega.

Syngja hástöfum til að laða kvendýrin að

Edda segir að við úrvinnslu á hljóðum frá síðasta ári bendi margt til makaleitar og jafnvel mökunar hnúfubaks í Skjálfandaflóa. Svo virðist sem karldýrin búi til leiksvæði (lek) og syngi þar hástöfum til að laða kvendýrin að, eins og þekkt sé meðal fíla. Þó að hnúfubakur sé í forgrunni hafa einnig náðst hljóðupptökur af hnýðingum, búrhvölum, langreyðum og steypireyðum.

VERÐLAUN Í HÁSKÓLANUM

Áhugaverðir og magnaðir

Verkefnið Tónar hafsins hlaut viðurkenningu þegar hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands voru veitt á síðasta ári. Með vinnslu efnisins er ætlunin að höfða til þess mikla fjölda sem fer í hvalaskoðun við Íslandsstrendur á hverju ári. Í samtali við Tímarit Háskóla Íslands segist Edda Elísabet vonast til að með aukinni þekkingu á hljóðum hvala og þá um leið hegðun þeirra verði samfélagið „meðvitaðra um það hversu ótrúlega áhugaverðir og magnaðir hvalirnir eru og sjái verðmætið sem felst í þeim, ekki bara í formi hvalkjöts“.