Víkverji umgengst duglegt fólk sem hefur verið svo heppið að lenda ekki í alvarlegum veikindum né atvinnumissi. Það er mikil lukka. En stundum verður þessi lukka til þess að sumir þeirra horfa til atvinnubóta og sjúkratrygginga með tortryggnum augum.

Víkverji umgengst duglegt fólk sem hefur verið svo heppið að lenda ekki í alvarlegum veikindum né atvinnumissi. Það er mikil lukka. En stundum verður þessi lukka til þess að sumir þeirra horfa til atvinnubóta og sjúkratrygginga með tortryggnum augum. Allir eru sammála um tilvist slíks kerfis. En þegar fregnir berast af því að einhverjir séu að misnota kerfið til að svíkja út úr því fé verður fólk skiljanlega fúlt. Það bölsótast og stundum kemur það með yfirlýsingar sem dæma allt fólkið á slíkum bótum sem lið sem ætti að fá sér vinnu og gera eitthvert gagn. Þetta er þó mikill minnihluti enda gera flestir sér grein fyrir því að sá litli huti ræfla sem svíkja fé út úr sjóðunum á ekki að vera notaður sem réttlæting til þess að afnema þetta tryggingakerfi sem hjálpar fólki í gegnum erfiða tíma.

Á hinn bóginn þekkir Víkverji líka fólk sem tengist ekki viðskiptum, starfar í opinbera geiranum, í listum eða öðrum geirum samfélagsins, en það hefur horft upp á fréttaflutning af því hvernig sumir menn í viðskiptalífinu sýndu glæpsamlega hegðun í uppsveiflunni. Þar sem örfáir gerðust sekir um svik og pretti og enn fleiri dönsuðu á gráu svæði sem var á mörkum þess sem telst siðferðislega viðurkvæmilegt. Frá þessum félögum Víkverja heyrir hann svipað raus um þetta lið í viðskiptum eins og þeir væru allir glæpamenn af því að einhverjir í uppsveiflunni reyndust vera glæpsamlegir. Þeir gleðjast í hvert sinn sem menn úr viðskiptalífinu eru settir í járn og trúa öllu illu sem um þá er sagt, sama hversu lélegur fjölmiðill flytur fréttirnar eða heimildirnar eru slakar.

Víkverji myndi verða mjög glaður ef fólk myndi minnka aðeins tilhneigingu sína til að dæma heila stétt sem glæpamenn af því að einhverjir innan hennar hafi reynst vera það. Það eru glæpamenn innan allra stétta landsins. En meirihluti fólks innan þeirra er afbragðsmenn sem eiga ekkert nema gott skilið.