Þorvaldur Jóhannsson
Þorvaldur Jóhannsson
Frá Þorvaldi Jóhannssyni: "„Heyrðu Manni: Þú ert skemmtilega stórskrítinn“. Það hefur alls ekki viðrað nógu vel um helgar fyrir skíðaiðkendur í Stafdalnum, skíðasvæði Seyðfirðinga og Héraðsbúa, í vetur."

„Heyrðu Manni: Þú ert skemmtilega stórskrítinn“.

Það hefur alls ekki viðrað nógu vel um helgar fyrir skíðaiðkendur í Stafdalnum, skíðasvæði Seyðfirðinga og Héraðsbúa, í vetur. Páskarnir sem alltaf hafa gefið okkur nokkra góða skíðadaga í gegnum árin brugðust nú algerlega.Það var því mikið gleðiefni um sl. helgi þegar nægur snjór var til staðar í Stafdalnum bæði laugardag og sunnudag og blíðskaparveður. Staðarhaldarinn Agnar hafði búið fjallið vel undir helgina og færi og veður skörtuðu sínu fegursta.

Margt var í fjallinu og mikið fjör enda stór hópur krakka úr Skíðafélaginu í Stafdal með leiðbeinendum sínum og foreldrum á lokaæfingu fyrir Andrésar-andarleikana, þeirra árlega landsmót, sem fram fer á Akureyri nú á sumardaginn fyrsta og næstu daga. Þar verða þau milli 30 og 40 fulltrúar skíðafélagsins í Stafdal. Glæsilegur hópur. Ég brá mér uppeftir báða dagana og naut þess að skíða frjáls eins og fuglinn með og innan um ungviðið í fjallinu. Ég tók eftir því síðari daginn að ungur, ákafur skíðakappi fylgdi mér upp í lyftunni nokkrar ferðir og skaust síðan alltaf fram úr mér í rennslinu á leiðinni niður. Einhverntíman hefði ég nú sennilega ekki látið þetta gerast svona átakalaust en nú hafði ég gaman af og naut þess að horfa á færni þessa unga drengs sem ég réð ekkert við.

Í einni ferðinni er við komum upp úr lyftunni beið hann eftir mér og spurði: „Heyrðu manni, af hverju syngur þú alltaf á leiðinni upp og niður?“ „Geri ég það“ spurði ég? „Já, og af hverju syngurðu alltaf sama lagið,“ spurði hann þá. „Geri ég það?“ Þá sagði ég honum frá því að þegar ég var með börnum mínum og barnabörnum sem nú eru öll uppkominn, á skíðum, eins og við gerðum mikið af, og ég var að leiðbeina þeim fyrstu skrefin þá notaði ég taktinn í söngnum til að fá mýkt í beygjurnar í brekkunum. Í þá daga sungum við alltaf Gamli Nói – Gamli Nói eða Atti Katti Nóa í takti við beygjurnar sem við tókum á leiðinni niður. Hann horfði á mig og spurði svo „Hva og virkaði það?“. „Já ég held það“, sagði ég. Eftir dágóða stund sagði ungi skíðakapinn ákveðinn: „Heyrðu manni þú ert skemmtilega stórskrítinn“ og gaf síðan á fullt niður skíðabrekkuna. Hann var að æfa fyrir Andrésar-andarleikana og á leiðinni á sitt landsmót.

Þegar ég renndi mér niður til að fá mér kaffi og skúffuköku í skíðaskálanum rifjaðist upp að texta- og lagavalið hafði breyst með árunum nú raulaði ég „ Kóngur einn dag“.

ÞORVALDUR JÓHANNSSON,

fyrrv. bæjarstjóri,

nú eldri borgari, Seyðisfirði.

Frá Þorvaldi Jóhannssyni