Jónas Þorsteinsson fæddist á Ytri-Kóngsbakka í Helgafellssveit 18. nóvember 1920. Hann lést á St. Fransiskusspítalanum í Stykkishólmi 27. mars 2012.

Útför Jónasar fór fram frá Stykkishólmskirkju 14. apríl 2012.

Að morgni 26 mars sl. fékk ég símhringingu frá Agnari fósturbróður að heilsu þinni hefði hrakað mikið og að það væri að styttast í kveðjustund. Ég var nú ekki lengi að hugsa mig um og var komin af stað vestur í Stykkishólm hálftíma síðar og var ég viðstödd er þú kvaddir þennan heim og hélst af stað í nýtt ævintýri.

Ég var 5 ára er ég kom á Kóngsbakka og þá ekki bara í heimsókn heldur til að festa þar rætur og slíta barnskónum. Ég var komin í fóstur til Jónasar og Heiðu. Þar var mér tekið opnum örmum og strax orðin ein af fjölskyldunni. Mér leið svo vel í sveitinni.

Ég var mjög ung er mér var gefinn fyrsti hesturinn og auðvitað tamdir þú hann af þinni tæru snilld. Það sem mér er svo minnistætt er að þú passaðir svo vel upp á, er ég byrjaði að fara á hestbak, að ég væri látin á barngóðan hest svo ekkert kæmi nú fyrir, enda datt ég í minningunni einu sinni af baki, þegar ég var að fara skeifnasprettinn á honum Þokka og var ég berbakt og datt niður við fjós af algjörum klaufaskap.

Ég á margar góðar minningar af okkar útreiðartúrum í sveitinni að þjálfa og þú að temja. Eitt er mér mjög minnistætt, að þegar ég var komin uppí rúm að þá komst þú oft og breiddir sængina yfir fætur mér og spurðir mig hvort mér væri kalt; þér var alltaf svo umhugað hvort mér væri kalt, sama hvað væri verið að gera.

Á 11 ára dvöl minni á Kóngsbakka man ég einu sinni eftir þér uppi í rúmi eitthvað slöppum og kallaðir þú á mig og baðst mig að færa þér kaffi sem ég gerði og skokkaði ég með bollann til þín en kaffið var ekki svart, ég setti óvart mjólk útí og það vildir þú nú ekki, en var fljót að laga það. Eftir að þið voruð flutt í Hólminn og ég kom í heimsókn klikkaði aldrei að við færum að ríða út og frameftir öllu varstu að temja sem mér þótti afar merkilegt, kominn yfir áttrætt – hvorki hugurinn né aldurinn stoppaði þig heldur var það skrokkurinn sem sagði stopp.

Okkur krökkunum þótti svo gaman að fá að sitja í eldhúsinu og fá að hlusta á ykkur fullorðna fólkið tala saman og ekki var leiðinlegt að heyra þig herma eftir einhverjum úr sveitinni; það var ótrúlegt hvað þú náðir vel fólki, sama hvort var um að ræða karl eða konu. Ófáar voru nú ferðirnar þegar menn komu að fá að skoða hestana sem voru á húsi ásamt beljum og nautgripum og var sambýlið bara gott. Eitt þótti mér merkilegt, hvernig þú vandir hestana sem voru á Kljá að er þeir heyrðu bílflautið frá þér komu þeir um leið – þeir báru virðingu fyrir þér, það var ljóst.

Það eru forréttindi að hafa fengið að vera þér samferða í lífinu sem dóttir og ætíð verið tekin opnum örmum og ekki síst syni mínum sem einu af þínu barnabarni. Nú ertu kominn í góðra manna hóp og veit ég að þar er vel tekið á móti þér.

Elsku besti Jónas fósturfaðir, ég kveð þig með kærri þökk fyrir allt. Blessuð sé minning þín.

Þín fósturdóttir,

Guðbjörg.