Stoltir strákar Leikmenn HK fögnuðu því vel og innilega þegar annar sigurinn á Haukum var staðreynd í Digranesi í gær. Þeir áttu vel inni fyrir fagninu enda komnir í lykilstöðu eða 2:0 og framhaldið bjart.
Stoltir strákar Leikmenn HK fögnuðu því vel og innilega þegar annar sigurinn á Haukum var staðreynd í Digranesi í gær. Þeir áttu vel inni fyrir fagninu enda komnir í lykilstöðu eða 2:0 og framhaldið bjart. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Digranesi Ólafur Már Þórisson omt@mbl.is HK færðist skrefi nær því að sópa deildarmeisturum Hauka út úr undanúrslitum N1-deildar karla í handknattleik. Liðið vann frækilegan þriggja marka sigur í gær, 21:18, og leiðir einvígið 2:0.

Í Digranesi

Ólafur Már Þórisson

omt@mbl.is

HK færðist skrefi nær því að sópa deildarmeisturum Hauka út úr undanúrslitum N1-deildar karla í handknattleik. Liðið vann frækilegan þriggja marka sigur í gær, 21:18, og leiðir einvígið 2:0. Eftir lélega byrjun heimamanna þar sem þeir höfðu mörg tækifæri manni fleiri, sneru þeir stöðunni við rétt eftir hálfleik og sigldu í höfn glæstum sigri. Þó það hafi verið áhyggjuefni hversu illa þeir nýttu sér það að vera manni fleiri sýndi það jafnframt hversu góð vörn Hauka var. Það var hinsvegar allt annað uppi á teningnum í sóknarleiknum þar sem ekkert gekk upp. Aðeins átta mörk frá skyttum liðins er minna en leikstjórnandi þeirra, Tjörvi Þorgeirsson, skoraði í síðasta leik liðanna. Þá létu þeir alltof oft reka sig út af þó sumir dómanna hafi reyndar verið nokkuð strangir.

Sóknarleikurinn er þó greinilega það sem Aron þarf að laga fyrir næsta bardaga liðanna sem verður á mánudaginn. Þá þarf hann einnig að berja sigurviljann í sína menn sem hafa gefið eftir í báðum leikjunum í seinni hálfleik.

Björninn er vaknaður

Þjálfarar HK geta hinsvegar verið ánægðir með sína menn enda tveir sigrar á Haukum í röð ekki eitthvað sem búist hafði verið við. Hvernig svo sem þeir fara að því skiptir ekki máli en leikur þeirra hefur verið sannfærandi.

Þá er enn ógetið hetju liðsins að þessu sinni en það var Björn Ingi Friðþjófsson markvörður. Hann varði 19 skot fyrir aftan frábæra vörn. Eftir erfitt tímabil fram að úrslitakeppninni hefur Björn heldur betur vaknað til lífsins. Hann vildi þó ekki gera of mikið úr sínu afreki. „Ég þurfti á tímabili ekki að vera í markinu. Þeir Bjarki Már Gunnarsson og Vilhelm Gauti Bergsveinsson stjórnuðu vörninni það vel. Ég hefði líklega geta sest á bekkinn,“ sagði þessi hógværi markvörður.

Munu reyna sitt besta við að slá deildarmeistarana út

Það var í raun ómögulegt að fá hann til að viðurkenna stóran þátt sinn í sigri HK enda þótt blaðamaður reyndi sem mest hann mátti. Spurður að því hvort hann væri ekki búinn að slá við markvörðum Hauka var hógværðin enn í hávegum höfð. „Nei, alls ekki. Við skorum ekki nema 21 mark og þó ég viti ekki hvað þeir vörðu þá hlýtur það að hafa verið eitthvað svipað. Þeir eru hvor um sig frábærir markverðir og Haukar með mjög gott varnarlið.“

Hann sagði sigurinn afar mikilvægan enda HK nú komið í vænlega stöðu. Hann sagðist mega búast við Haukum dýrvitlausum á heimavelli á mánudaginn. „Þeir koma til með að berja á okkur og mæta brjálaðir til leiks. Við munum að sjálfsögðu reyna okkar besta til að vinna en ég þori ekki að spá 3:0,“ sagði Björn Ingi.

*Myndbandsviðtöl við þá Aron Kristjánsson, þjálfara Hauka, og Erling Richardsson, annan þjálfara HK, er að finna á mbl.is. Þar segir Aron meðal annars að leikmenn liðsins hafi ekki spilað saman sem lið heldur einstaklingar og að það sé áhyggjuefni. Erlingur segir hinsvegar aðspurður að hann sé farinn að finna fyrir meðbyrnum í einvíginu enda komi hann ávallt eftir einn, hvað þá tvo sigurleiki.

HK – Haukar 21:18

Digranes, undanúrslit Íslandsmóts karla, N1-deildarinnar, 2. leikur, föstudaginn 20. apríl 2012.

Gangur leiksins : 1:0, 1:3, 4:5, 4:8, 8:8 , 10:10, 12:10, 15:15, 17:15, 18:17, 20:17, 20:18, 21:18 .

Mörk HK : Ólafur Bjarki Ragnarsson 6, Bjarki Már Elísson 5, Atli Ævar Ingólfsson 4, Tandri Már Konráðsson 3, Sigurjón Friðbjörn Björnsson 2, Ólafur Víðir Ólafsson 1.

Varin skot : Björn Ingi Friðþjófsson 19 (þar af 6 til mótherja), Arnór Freyr Stefánsson 2/1 (þar af 0/1 til mótherja).

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk Hauka : Freyr Brynjarsson 4, Sveinn Þorgeirsson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Gylfi Gylfason 3/2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Heimir Óli Heimisson 1.

Varin skot : Aron Rafn Eðvarðsson 9/1 (þar af 1 til mótherja), Birkir Ívar Guðmundsson 2.

Utan vallar : 12 mínútur.

Dómarar : Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson, ágætir.

Áhorfendur : 1067.

* HK er yfir 2:0 í einvíginu.