Þorsteinn Jónasson fæddist á Þuríðarstöðum í Fljótsdal 11. apríl 1932 hann lést á sjúkrahúsinu í Neskaupstað 18. október 2011.

Foreldrar hans voru hjónin Jónas Þorsteinsson og Soffía Ágústsdóttir. Hann var fjórði í tólf syskina hóp. Systkinin eru Ágústa, María, Þórhildur, Hjalti, Jón Þór, Skúli, Bergljót, Benedikt, Ásgeir, Unnur og Soffía. Látnar eru Ágústa og Bergljót. Þorsteinn var í sambúð með Ingibjörgu Þórhallsdóttur, f. 4. april 1939. Foreldrar hennar voru Þórhallur Ágústsson og Iðunn Þorsteinsdóttir. Synir, fósturdóttir og tengdabörn þeirra eru Þórhallur, var í sambúð með Sólveigu Dagmar Bergsteinsdóttur, börn þeirra eru Emil Atli og Erla Björg Fanney. Jónas, kvæntur Sigríði Hrönn Gunnarsdóttur, börn þeirra eru Selma Hrönn og Pálmi Þór. Iðunn Þóra Friðriksdóttir fósturdóttir, í sambúð með Magna Björnssyni.

Útför Þorsteins fór fram frá Valþjófsstaðarkirkju 29. okt. 2011.

Mig langar að skrifa fáein kveðjuorð um vin minn Þorstein Jónasson frá Þuríðarstöðum. Ég kynntist fyrst Steina hinn 17. júní 1955, þegar ég kom með flugi til Egilsstaða, þá 10 ára gamall, ásamt Beggu frænku minni frá Víðivöllum fremri í Fljótsdal. Þann dag var samkoma í Egilsstaðaskógi og Begga frænka ætlaði að nota ferðina og skreppa á ball, en hvað átti að gera við strákinn úr Reykjavík, sem engan þekkti? Jú við gengum fram á Steina þarna í skóginum og honum var falið að líta eftir mér þarna um kvöldið. Þarna hittumst við Steini í fyrsta sinn og hefur margt drifið á daga okkar síðan.

Steini bjó í þá daga á Þorgerðarstöðum í Fljótsdal og stundaði smíðar og alls kyns vinnu, sem bauðst í þá daga, enda handlaginn mjög. Steini bjó í mörg ár á Arnaldsstöðum í Fljótsdal, ásamt með konu sinni Ingibjörgu Þórhallsdóttur frá Langhúsum. Eignuðust þau tvo syni, þá Þórhall og Jónas, en þeir fengu nöfn afa sinna. Eru barnabörnin orðin fjögur. Ég minnist þess að Steini var áhugamaður um hesta og kom hann stundum ríðandi í Víðivelli fremri á honum Loga sínum, þar sem ég var sveitastrákur, en Logi var fjörhestur, rauðglófextur og með fallegustu hestum. Ég heimsótti margoft Steina og Ingibjörgu í Arnaldsstaði og var þá lagt á og riðið inn á Þorgerðarstaðadal. Var kannski peli með í för og gamlir dagar rifjaðir upp. Síðar, eftir að þau hjón fluttu til Egilsstaða, heimsótti ég þau og fór ég með Steina í hesthúsið þar sem hann hafði sína hesta í þá daga. Einnig fórum við í bíltúr upp í Fljótsdal, til að rifja upp gamlar minningar og einnig var vinur okkar Sverrir Þorsteinsson, frá Klúku, með í för, en hann lést 6. nóvember sl. og hef ég þá séð á eftir tveimur góðum vinum mínum, yfir móðuna miklu. Vegna búsetu erlendis auðnaðist mér ekki að fylgja Þorsteini til grafar. Hvíl í friði, gamli vinur.

Magnús Magnússon.