Guðvarður Jónsson
Guðvarður Jónsson
Frá Guðvarði Jónssyni: "Nú er fast sótt að forsetastólnum og það telja þeir sem heitast þrá að koma núverandi forseta af Bessastöðum, æskilega þróun."

Nú er fast sótt að forsetastólnum og það telja þeir sem heitast þrá að koma núverandi forseta af Bessastöðum, æskilega þróun. Fátt bendir þó til þess að þeir sem bjóða sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni hafi fram að færa meiri hæfileika til að leysa af hendi verkefni embættisins. Flestir lýsa yfir að þeir vilji málskotsréttin virkan. Það segir þó lítið því hægt er að virkja hann á ýmsa vegu og nauðsynlegt að meðhöndla það vald af varfærni. Það er t.d. enn ekki orðið ljóst hvort ákvörðun forsetans að vísa síðasta Icesave-samningi í þjóðaratkvæði, skili þjóðinni jákvæðri niðurstöðu. En þjóðin studdi þessa ákvörðun forsetans með afgerandi hætti og er þar með orðin ábyrg fyrir afleiðingunum. Hvort þjóðin tekur svo þá ákvörðun í vor að þakka Ólafi fyrir stuðninginn með því að fleygja honum á dyr fyrir sjónvarpsstjörnu á eftir að koma í ljós. Það væri ósköp íslenskt.

Aftur á móti er spurning hvort Ólafur Ragnar Grímsson hafi gert rétt að auka með þessum hætti vald forseta, það gerir val á nýjum forseta mun erfiðara en var áður. Þá þurfti bara að velja aðila með góða menntun og fágaða samkvæmishæfileika. Þeir sem bjóða sig fram nú til forseta þurfa að vera þjóðþekktir menn svo auðveldara sé að átta sig á því hvernig þeir muni, hugsanlega, beita málskotsréttinum. Það er líka spurning hversu ungir og reynslulitlir frambjóðendur megi vera nú þegar vald embættisins getur verið örlagavaldur í þjóðlífinu. Fjárhagslega er það ekki hagkvæmt fyrir þjóðina að velja unga aðila sem fara eftir fjögur eða tólf ár frá embætti og verða svo eftir það á launum hjá ríkinu til æviloka, ásamt því að vera vellaunaðir á vinnumarkaði.

Mín skoðun er sú að frambjóðendur til forseta eigi ekki að vera undir fimmtíu og fimm ára, þá ættu þeir að vera orðnir þjóðþekktir og með góða reynslu í þjóðmálum. Ég tel einnig að þjóðaratkvæði ætti aldrei að vera um milliríkjamál, nema þegar rætt er um að innlima þjóðfélagið í ríkjasamband, eins og t.d. Evrópusambandið, þar á þjóðin að hafa síðasta orðið.

GUÐVARÐUR JÓNSSON,

Valshólum 2, Reykjavík.

Frá Guðvarði Jónssyni