Úthald Gunnlaugur hefur tekið þátt í fjölda langhlaupa.
Úthald Gunnlaugur hefur tekið þátt í fjölda langhlaupa. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Langhlauparinn Gunnlaugur Júlíusson hefur skráð sig til leiks í hlaupinu Grand Union Canal Race á Bretlandi sem fram fer fyrstu helgina í júní, frá laugardeginum 2. júní til mánudagsins 4. júní.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Langhlauparinn Gunnlaugur Júlíusson hefur skráð sig til leiks í hlaupinu Grand Union Canal Race á Bretlandi sem fram fer fyrstu helgina í júní, frá laugardeginum 2. júní til mánudagsins 4. júní.

Hlaupið verður frá miðborg Birmingham, annarrar stærstu borgar Bretlands, til London meðfram síkjum og gömlum flutningaleiðum sem liggja á milli borganna. Vegalengdin sem er hlaupin er 144 mílur eða rúmur 231 kílómetri. Keppendur, sem eru um 220-230 talsins og koma víða að úr Evrópu, hafa að hámarki tvo sólahringa til þess að ljúka hlaupinu.

„Þetta er svolítið öðruvísi hlaup því það er ekki hlaupið eftir malbikuðum stígum heldur eru þetta slóðar meðfram þessum síkjum. Það getur verið drulla, sef og gróður þannig að þetta er öðruvísi,“ segir Gunnlaugur um hlaupið.

Hann segist ekki hafa sett sér nein markmið um tíma sem hann ætli að ná enda erfitt að áætla það þar sem aðstæður geti breytt miklu. Ef það rigni til dæmis þá sé ekki sjálfgefið að menn komist eitthvað áfram. Hann segist þó vita til þess að menn hafi klárað hlaupið á rétt undir þrjátíu klukkustundum.

Með kortabók á lofti

Keppendur hlaupa vegalengdina í einum rykk en drykkjar- og næringarstöðvar eru á um 20-30 kílómetra fresti á leiðinni að sögn Gunnlaugs. Menn þurfi þó að ná að stöðvunum innan ákveðins tíma og þeir megi aðeins stoppa þar ákveðið lengi.

Það er mikilvægt að vera vel útbúinn í hlaupi sem þessu og þá er kortabókin sérlega mikilvæg því að hlaupaleiðin er ekki sérstaklega merkt. Þá segist Gunnlaugur verða með ljós á sér til þess að geta hlaupið í gegnum nóttina.

„Maður verður með nesti, föt og græjur til þess að geta gert að sér í erfiðleikum, eins og plástra, krem og þvíumlíkt. Það er bara staðalbúnaður,“ segir Gunnlaugur.

Áskorun að finna þolmörkin

Þetta er langt því frá fyrsta langhlaupið sem Gunnlaugur leggur upp í en hann hefur tekið þátt í fjölda sólarhrings- og tveggja sólarhringa hlaupa erlendis.

Þannig hefur hann til dæmis tvisvar sigrað í tveggja sólarhringa hlaupum í Danmörku og síðasta sumar lenti hann í þriðja sæti í írska meistaramótinu í sólarhringshlaupi. Þau hlaup voru þó frábrugðin mótinu í Bretlandi í sumar að því leyti að í þeim keppast menn við að hlaupa sem lengst á þeim tíma sem er gefinn.

„Þetta er bara áskorun að finna þolmörkin. Sumir hlaupa hratt, aðrir hlaupa lengi,“ segir Gunnlaugur þegar hann er spurður um hvað það sé sem laði hann að því að hlaupa tímunum saman. „Þetta er ákveðin áskorun að finna hvað maður getur þjálfað sig upp í að gera.“