Aðskilnaður Davíð Stefánsson hjá Greiningardeild Arionbanka og Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri sitja hér fremstir á meðal áheyrenda á vel sóttum fundi í Arionbanka í gærmorgun.
Aðskilnaður Davíð Stefánsson hjá Greiningardeild Arionbanka og Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri sitja hér fremstir á meðal áheyrenda á vel sóttum fundi í Arionbanka í gærmorgun. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Börkur Gunnarsson borkur@mbl.

Baksvið

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabanka virðist ekki skila tilætluðum árangri auk þess sem hann felur í sér umtalsverðan kostnað fyrir lántakendur og fjármagnseigendur,“ sagði Davíð Stefánsson hagfræðingur hjá Greiningardeild Arion banka á morgunfundi í bankanum í gær þar sem kostir og gallar slíks aðskilnaðar voru ræddir.

Í lok fundarins tók Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri, saman það sem hafði verið rætt og ítrekaði að fundurinn hefði verið haldinn í von um að gera umræðuna um þessi mál vitrænni. Hann vitnaði í Moniku Caneman sem er fyrrverandi aðstoðarforstjóri Skandinaviska Enskilda Banken sem sagði að bankarnir í Svíþjóð þættu svo hrikalega litlir að það tæki því ekki að skipta þeim svona upp. Höskuldur bætti því svo við að meðalstór banki í Svíþjóð væri að jafnaði um tíu sinnum stærri en þeir íslensku.

Hann sagði að eitt mikilvægasta hlutverk íslensku bankanna í dag sé að skapa traust á alþjóðlegum mörkuðum. Að ábyrgð frá banka sem ekki nýtur trausts sé einskis virði.

Auk Davíðs og Höskuldar héldu Jenkins og Lient erindi en þeir vinna fyrir ráðgjafafyrirtækið McKinsey, annar í London en hinn í Osló.

Hættan ekki mikil hér á landi

Davíð Stefánsson fór í gegnum það hvernig alþjóðlega fjármálakreppan hefði leitt í ljós ýmsa vankanta á uppbyggingu fjármálakerfisins. En kreppan hafi valdið því að vandinn jókst erlendis en minnkaði hér á landi. Víða í Evrópu hefði ríkið gripið inní og bjargað bönkunum en hér hefðu þeir verið látnir fara á hliðina og úr urðu innlendir viðskiptabankar sem væru hættuminni.

Að mati Davíðs sker stærð íslenska bankakerfisins sig því ekki lengur úr í alþjóðlegum samanburði en í mörgum löndum er nú mun stærra bankakerfi sem hlutfall af landsframleiðslu en á Íslandi, til dæmis í Bretlandi, Sviss og Svíþjóð. Þá er fjárfestingarbankastarfsemi nýju íslensku bankanna afar lítil og aðeins brot af heildarstarfsemi þeirra. Þótt slík starfsemi kunni að aukast á næstu árum telur Davíð það afar ólíklegt að hún nái nokkrun tíma sömu hæðum og erlendis þarsem fjármálamarkaðir séu afar þróaðir. Íslensku bankarnir séu í dag fyrst og fremst innlendir viðskiptabankar og þar sé lítil fjárfestinga bankastarfsemi. Útlánasamsetning sé frábrugðin miðað við erlenda banka og alþjóðleg starfsemi lítil. Hjá bönkunum sé hærra eiginfjárhlutfall og minni vogun.

Ofurtrú á markaðinn

Jenkins og Lient varð tíðrætt um regluverkið og Basel III sem er það regluverk sem evrópsku bankarnir ætla að vera búnir að innleiða fyrir árið 2019. Þeir bentu á að þeir væru ekki það mikið inní íslenskum aðstæðum til að geta ráðlagt þjóðinni hvað eigi að gera í hennar málum en þeir gætu deilt vangaveltum um aðstæður í Evrópu.

Þeir bentu á að eftirlit og tilskipanir hefðu aukist mjög eftir að alþjóðlega fjármálakrísan reið yfir.

Þeir vildu meina að trúin á markaðinn hefði verið of mikil fram að krísunni. Menn hefðu talið að markaðurinn myndi ná jafnvægi af sjálfu sér, markaðurinn væri svo skynsamur. „En hvernig gat markaðurinn ekki séð að það myndi enginn koma í þessa ofgnótt húsa sem var verið að byggja, til þess var ekki nógu mikið af fólki? Markaðurinn getur einfaldlega orðið blindur einsog við öll í uppsveiflum.“ En þeir bentu einnig á þann gríðarlega kostnað sem er í vörnum bankanna og eftirlitinu sjálfu. Það hefði kostað um 238 milljarða bandaríkjadali að bjarga breska bankakerfinu. Það er gríðarlega há tala en samt lítil í samanburði við það fjármagn sem bankar Evrópu þurfa að bæta við eigið fé sitt til að ná viðmiðum Basel III sem á að innleiða að fullu í Evrópu fyrir árið 2019. En samkvæmt útreikningum eru það 1300 milljarðar dollara.

Skýrslan afgerandi

Samkvæmt skýrslu Greiningardeildar Arionbanka um málið sem dreift var í lok fundarins er talið að ókostirnir séu fleiri en kostirnir við að skilja að viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi hér á landi. Í skýrslunni er sagt að líklega myndi það leiða til þess að aðskildir viðskiptabankar verði litlu minni en þeir voru áður og nýir fjárfestingarbankar yrðu litlir og vanmáttugir og þetta hefði neikvæð áhrif á getu fyrirtækja til að sækja nýtt hlutafé. Auk þess myndi aðskilnaður leiða til aukins kostnaðar við miðlun fjármagns hér á landi þarsem stærðar- og breiddarhagræði tapaðist.

Í skýrslunni er bent á kosti aðskilnaðar. Horft er til gömlu bankanna og þeirrar staðreyndar að þeir virðast hafa veitt afar slæm útlán til eignarhaldsfélaga í þeim tilgangi að búa til þóknunartekjur og styðja við gengi eigin bréfa. En aðskilnaður myndi girða fyrir að bankar sem taki við innlánum veiti slík lán. Á það er bent að nú þegar séu komnar laga- og reglugerðarbreytingar, ásamt auknu eftirliti, sem komi í veg fyrir að bankar geti yfirleitt veitt mörg af þeim lánum sem þeir veittu á sínum tíma til eignarhaldsfélaga. „En ef ekki yrði að aðskilnaði gæti verið nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða til að koma í veg fyrir slík útlán og þann freistnivanda (þ.e. að léleg útlán séu veitt til að búa til þóknunartekjur) sem fylgir samrekstri viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi,“ segir í skýrslunni.

Basel III og íslensku bankarnir
» Basel reglugerðin er sett af Alþjóðagreiðslubankanum (oft kallaður Seðlabanki seðlabankanna)
» Frá þeim hafa komið leiðbeinandi reglugerðir til þjóða frá 1975 en stofnunin er staðsett í Basel í Sviss.
» Uppfærsla á alþjóðaregluverki bankanna, kallað Basel III, hefur verið samþykkt og er innleiðing þess hafin en á að ljúka fyrir 2019.
» Samkvæmt Basel III er búið að hækka kröfu um lágmark eigin fjár banka upp í 10,5% til 13% en hjá íslensku bönkunum er það nú 16% og flestir þeirra jafnvel með það mun hærra en lágmarkskrafa er um.
» Í Basel III eru einnig gerðar meiri kröfur um gæði eigin fjár.