Hrafnhildur Gríma Thoroddsen fæddist í Reykjavík 27. febrúar 1923. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli á skírdag, 5. apríl 2012.

Útför hennar var gerð frá Bústaðakirkju 13. apríl 2012.

Það kallar bæði fram bros og tár að rita þessi orð í minningu kærrar móðursystur minnar, Hrafnhildar, eða Daddíar eins og hún var kölluð. Brosið læðist fram á varirnar þegar ég minnist hláturs hennar en tárin þegar ég hugsa til þess að nú er hún að fullu og öllu horfin sjónum mínum líkt og systir hennar, móðir mín. Í minningunni mun hún þó lifa áfram í huga mér uns ég sjálf er öll.

Ég minnist Daddíar sem hlýrrar, yndislegrar konu sem var gjafmild, glaðvær og hjálpsöm. Það er ekki svo lítið að skilja eftir sig í leiðarlok svo fallegar minningar í huga annarra. Og kímnigáfa hennar var hreint út sagt alveg dásamleg. Hún var sannarlega elskuverð kona.

Aldrei heimsóttum við Daddí og Viggó, eiginmann hennar, öðruvísi en svo að ég og fjölskylda mín nytum ekki ríkulegra veitinga og værum helst leyst út með gjöfum í heimsóknarlok. Dætur mínar og ég eigum fagra muni sem Daddí bjó til sjálf á efri árum og gaf okkur. Munum við gleðjast yfir þeim og varðveita þá ævilangt.

Daddí var aðeins rúmu ári eldri en mamma mín og var eins kært á milli þeirra systra og hugsast getur. Á unga aldri misstu þær móður sína og varð það til þess að hnýta kærleiksböndin enn fastar á milli þeirra. Þær elskuðu hvor aðra heitt. Á ég margar góðar minningar sem barn af þeim saman í eldhúsinu á æskuheimili mínu spjallandi saman yfir kaffibolla, báðar ljómandi af gleði yfir návist hvor annarrar – hlæjandi sínum smitandi, glettnislega hlátri. Ég naut þess að vera nálægt þeim tveimur sem höfðu svo mikinn kærleik til að bera, svo mikla ást að gefa.

Eins eru mér ógleymanlegar afmælisveislur þeirra systra allra, þar sem oftar en ekki voru rifjaðar upp bernskuminningar og hláturinn ómaði skært. Það var alltaf svo mikil gleði þar sem þær komu saman.

Það var Daddí mikið reiðarslag er móðir mín lést skyndilega og kom ég aldrei svo til hennar að hún talaði ekki um eilífan söknuð sinn eftir mömmu og systkinum sínum öllum en Daddí var þá ein orðin eftir, hún varð síðust til að fara.

Ég vil trúa því að nú séu systkinin öll sameinuð á ný. Það hafa líkast til verið gleðiríkir endurfundir!

Ég votta öllum aðstandendum Daddíar og vinum hennar dýpstu samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni. Guð blessi minningu hennar.

Marfríður Hrund

Smáradóttir.

Hrafnhildur mín kæra er látin. Hún og Viggó voru vinir foreldra minna og því stór hluti af bernsku minni. Mig langar til að þakka þessari góðu konu fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Ég minnist ljúflyndis hennar, bross sem lýsti upp andlitið eins og sól og hláturs hennar. Já, hvílíkur hlátur! Hann var svo smitandi, að stundum hló ég með, þó ég skildi ekki alltaf brandarann, því það var bara svo gaman að hlæja með Hrafnhildi. Hláturinn bætir lífið. Það gerði mín kæra vinkona. Hafðu kærar þakkir. Öllum hennar ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Brynja Guttormsdóttir.