Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hafa sambandið og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi hafið samstarf um söfnun og skráningu á íþróttatengdum skjölum eins og sendibréfum, ljósmyndum, myndböndum, fundargerðum, mótaskrám,...

Í tilefni af 100 ára afmæli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hafa sambandið og Félag héraðsskjalavarða á Íslandi hafið samstarf um söfnun og skráningu á íþróttatengdum skjölum eins og sendibréfum, ljósmyndum, myndböndum, fundargerðum, mótaskrám, félagaskrám, bókhaldi og merkjum.

Heimildir um töp og sigra

Skjalasöfn íþróttafélaganna eru frumheimildir og vitnisburður um starfsemi þeirra: hvaða hugsjónir voru að baki, um baráttuna, þrotlausar æfingar til að ná árangri, töp og glæsta sigra, dugnað og elju einstakra einstaklinga við uppbyggingu félaganna, oft í ólaunuðu sjálfboðaliðastarfi. Mikilvægt er að skjalasöfn íþróttafélaganna glatist ekki, heldur séu varðveitt tryggilega og aðgengilega á skjalasöfnum landsins.

Helsta markmið með þessu átaki er að gögnin sé skráð á réttan stað og ekki síst geymd á öruggum stað. Öll héraðsskjalasöfn landsins taka þátt í verkefninu, en þau eru alls 20 á Íslandi. Alls eru 25 íþróttahéruð á landinu: sjö íþróttabandalög og 18 héraðssambönd.

Sending í 200 öskjum

„Við teljum misjafnt hvernig haldið hefur verið utan um skjöl og aðra muni íþróttafélaganna. Stærri félögin sem hafa ríkari menningu og formfestu í starfi sínu hafa, held ég, haldið sögulegum gögnum til haga en í þeim minni er þetta oft lausara í reipunum, að ætla má. Á þessu eru þó ýmsar undantekningar til beggja átta,“ segir Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður í samtali við Morgunblaðið.

Svanhildur nefnir að árið 2002 hafi Borgarskjalasafn Reykjavíkur farið í árangusríkt átaksverkefni og þá hafi fjölmörg félög látið safninu í té gögn sem verði til framtíðar litið á sem mikilsverðar heimildir. Nefnir þar meðal annars sendingu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, knattspyrnuráði Reykjavíkur og sundráði Reykjavíkur en sendingin frá þessum samtökum telst 200 öskjur, komin í hillur safnsins.

„Hættan er alltaf sú að séu gögn félaga til dæmis á heimilum forystumanna dagi þau þar uppi og eftir þeirra dag, þegar afkomendur fara að fletta í gegnum bunkana, átti þeir sig ekki á gildinu og fari með allt á haugana. Með slíku glatast mikilar heimildir og í raun ómetanleg verðmæti og þess vegna hvetjum við alla til þess að koma með skjöl til okkar – hvers eðlis sem þau eru,“ segir Svanhildur. sbs@mbl.is