Ævar Karl Ólafsson fæddist í Innbænum á Akureyri 23. september 1940. Hann lést 3. apríl 2012.

Útför Ævars Karls fór fram 13. apríl 2012.

Kveðja frá Tollvarðafélagi Íslands

Fyrir hönd Tollvarðafélags Íslands vil ég minnast félaga okkar til margra ára, Ævars Karls Ólafssonar. Árið 1975 gekk Ævar í Tollvarðafélag Íslands og hóf störf sem tollvörður á Akureyri. Þar starfaði hann þar til hann fluttist búferlum til Reykjavíkur 1988 og hóf störf við tollgæsluna í Reykjavík. Starfsferill Ævars í tollgæslunni var farsæll, hann var eftirtektarsamur og tók eftir hlutum sem aðrir tóku ekki eftir. Það kom sér því vel að hafa mann eins og hann í tollgæslunni. Ævar var mikið snyrtimenni og gætti þess að allir hlutir væru í röð og reglu, allt var snyrtilegt í kringum hann. Hann bar virðingu fyrir einkennisbúningi sínum og var ætíð vel til fara. Ævar var stoltur af sínum heimahögum og var óþreytandi að kynna fyrir okkur á suðvesturhorninu góðmeti að norðan eins og magál og Bragakaffi. En í huga Ævars var ekkert sem gat kallast kaffi nema að það væri Bragakaffi.

Fyrir hönd Tollvarðafélags Íslands sendi ég aðstandendum Ævars dýpstu samúðarkveðjur en minning um traustan og góðan vinnufélaga lifir.

Ársæll Ársælsson,

formaður TFÍ.