Hávörn Hin þrautreynda Miglena Apostolova hjá Aftureldingu reynir að koma boltanum yfir hávörnina hjá Þrótti Neskaupstað í gærkvöldi.
Hávörn Hin þrautreynda Miglena Apostolova hjá Aftureldingu reynir að koma boltanum yfir hávörnina hjá Þrótti Neskaupstað í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að Varmá Kristján Jónsson kris@mbl.is Afturelding á góða möguleika á því að næla í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í blaki kvenna en liðið komst 1:0 yfir í úrslitarimmunni gegn Þrótti frá Neskaupstað í Mosfellsbænum í gærkvöldi.

Að Varmá

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Afturelding á góða möguleika á því að næla í sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í blaki kvenna en liðið komst 1:0 yfir í úrslitarimmunni gegn Þrótti frá Neskaupstað í Mosfellsbænum í gærkvöldi. Afturelding getur þá jafnframt orðið tvöfaldur meistari því liðið sigraði einnig í bikarkeppninni á dögunum en andstæðingurinn þar var einnig Þróttur.

Leikurinn í gærkvöldi var mun betri en bikarúrslitaleikurinn á milli liðanna og mikil skemmtun. Afturelding komst í 1:0 með því að vinna fyrstu hrinu 25:19 en Þróttur svaraði með því að vinna næstu tvær hrinur en báðar enduðu 25:21. Þriðja lotan var mjög spennandi og vel spiluð og að henni lokinni virtist sem Þróttur væri kominn í góða stöðu enda mikil seigla í liðinu. Mosfellingar fóru hins vegar ekki á taugum og náðu góðu forskoti í fjórðu hrinunni. Austfirðingar héldu áfram að berjast en Afturelding vann hrinuna 25:20.

Þurfti því oddahrinu til þess að skera úr um úrslit og í henni byrjaði Afturelding frábærlega og skoraði fimm fyrstu stigin og vann hrinuna 15:10 og þar með leikinn 3:2. Næsti leikur fer fram í Neskaupstað á sunnudaginn klukkan 14 og þá getur Afturelding tryggt sér titilinn. Takist Þrótti að jafna metin á sínum sterka heimavelli þá mætast liðin í oddaleik í Mosfellsbænum í næstu viku.

*Á mbl.is/sport er að finna myndbandsviðtöl við Velinu Apostolovu, Aftureldingu, og Huldu Elmu Eysteinsdóttur, Þrótti Nes. kris@mbl.is