Agnar Baldur Víglundsson fæddist á Ólafsfirði 5. apríl 1930. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 27. mars 2012.

Útför Agnars for fram frá Ólafsfjarðarkirkju 10. apríl 2012.

Þó missi ég heyrn, mál og ró

og máttinn ég þverra finni,

Þá sofna ég hinst við dauðadóm

Ó drottinn gef sálu minni

að vakna við söngsins helga hljóm

í himneskri kirkju þinni.

(Ólína Andrésd.)

Elsku tengdapabbi, þín er sárt saknað. Þó er svo stuttur þráður á milli lífs og dauða, að þrátt fyrir að þú sért horfinn okkur, ertu það ekki því ennþá finn ég fyrir nærveru þinni og sé bros þitt sem náði til augna þinna og það þurfti engin orð því það sagði allt og verður sú minning ætíð höfð mér í minni.

Agnar var stoltur af afkomendum sínum og ætt, átti auðvelt með að rekja ættir sínar og annarra með stundum gamansömum frásögum sem bæði ungir sem aldnir höfðu gaman af. Hann las sér mikið til fróðleiks og skemmtunar sem og kunni hann ógrynnin af kvæðum og ljóðum og var unun að heyra hann fara með þau, sem hann gerði við hvert tækifæri er ættin kom saman eða annars konar mannfagnaður var haldinn. „Maður er manns gaman.“ Þannig var tengdapabbi, glaðlyndur, glettinn, hlýr og kærleiksríkur og er ég sannarlega heppin að hafa átt hann að í þau tuttugu og níu ár sem liðin eru frá því ég heilsaði uppá hann fyrst.

Til að byrja fannst mér ekki mikið fara fyrir karli, en svo fór ég að sjá hversu mikinn karakter hann hafði að geyma. Það haggaði ekkert honum Agnari ef hann tók eitthvað í sig, því staðfastur var hann og vissi hvað hann vildi.

Oft var gauragangur og líflegt á „Glaumbæ“ (Kirkjuveginum), þá þurfti hann ekki að beita rödd sinni nema einu sinni en þá hljóðnaði fljótt í kotinu, og reyndar upplifði ég það líka í fjárhúsunum þegar í eitt skiptið sem við fórum að gefa kindunum, sem þá jörmuðu hver ofan í aðra og tengdapabbi kallaði „Þegiði!“, og allt féll í dúnalogn, svo heyrðist eitt „meehh“.

Fjárhúsin, enski boltinn, lestur og fjölskyldugildin, myndi ég segja, voru honum kærust, og þótt farið væri að draga af honum undir það síðasta var hann ávallt að huga að fólkinu sínu og á sjúkrabeði vildi hann ekki að fólkið hans upplifði hann sem veikan og bað okkur að fara heim og halda okkar striki í lífinu sem hann unni. Er það okkar að halda áfram í minningu hans með þeirri einlægni að virða náttúruna, dýrin og fólkið í kringum okkur því þannig lifði hann til lokadags, og bið ég honum Guðs blessunar og friðar í nýjum heimkynnum þar sem við öll hittumst á ný undir sólarinnar dýrðarljósi og verður þá faðmast og kysst.

Ó, Jesús, séu orðin þín

andláts síðasta huggun mín.

Sál minni verði þá sælan vís

með sjálfum þér í Paradís.

(Hallgrímur Pétursson)

Elsku tengdamamma og fjölskylda, megi sorginni verða af ykkur létt og minningarnar fallegu verða geymdar í hjörtum okkar. Guð blessi ykkur öll.

Dagbjört Gísladóttir.