90 ára Jóhannes með tveimur dótturdætrum sínum, þeim Iðunni Helgu Zimsen, sex ára, og Grétu Petrínu Zimsen, þriggja ára.
90 ára Jóhannes með tveimur dótturdætrum sínum, þeim Iðunni Helgu Zimsen, sex ára, og Grétu Petrínu Zimsen, þriggja ára. — Ljósmynd/Úr einkasafni
Mér líður stórkostlega vel og ég finn hvergi til,“ sagði Jóhannes Guðlaugur Jóhannesson, sem verður níræður á morgun, 22. apríl.

Mér líður stórkostlega vel og ég finn hvergi til,“ sagði Jóhannes Guðlaugur Jóhannesson, sem verður níræður á morgun, 22. apríl. Hann fæddist og ólst upp á Nönnugötu 6 í Reykjavík og býr þar enn ásamt eiginkonu sinni, Petrínu Kristínu Steindórsdóttur. „Það kom aldrei til mála að flytja af Nönnugötunni,“ sagði Jóhannes. „Maður þekkti alla áður en núna engan,“ sagði Jóhannes um nágrannana.

Jóhannes var í fyrsta árgangi Austurbæjarskólans sem tók til starfa haustið 1930. Að loknu námi fór hann að vinna og var m.a. sendisveinn hjá Blómum og ávöxtum og fór um bæinn á reiðhjóli með vörur. Jóhannes tók bílpróf og svo fór að ævistarf hans snerist um bíla, nánar tiltekið strætisvagna. Hann var starfsmaður Strætisvagna Reykjavíkur (SVR) í 42 ár. Fyrstu árin var hann strætisvagnabílstjóri.

„Þetta voru ágætir bílar en göturnar stundum dálítið holóttar,“ sagði Jóhannes. „Það var alltaf fullur bíll af fólki.“ Eftir að hann hætti akstri fór hann að vinna á verkstæði SVR. Auk þess bar hann út Morgunblaðið í um aldarfjórðung, einn eða með öðrum.

Jóhannes á alls níu börn og stjúpbörn auk barnabarna. Hann átti þrjú börn úr fyrra sambandi þegar hann giftist Petrínu og hún átti þrjú börn. Þau eignuðust þrjú börn saman þannig að barnaskarinn var stór. gudni@mbl.is