Fríhöfn Keflavíkurflugvöllur.
Fríhöfn Keflavíkurflugvöllur. — Morgunblaðið/ÞÖK
Ingvar P. Guðbjörnsson ipg@mbl.is Flugfarþegar á Keflavíkurflugvelli mega nú búast við því þegar þeir kaupa vörur í Leifsstöð að þeir verði að framvísa flugnúmeri til að fá afgreiðslu.

Ingvar P. Guðbjörnsson

ipg@mbl.is

Flugfarþegar á Keflavíkurflugvelli mega nú búast við því þegar þeir kaupa vörur í Leifsstöð að þeir verði að framvísa flugnúmeri til að fá afgreiðslu.

„Þetta er ákvæði sem hefur verið í gildi um nokkurt skeið um sölu í tollfrjálsri verslun,“ segir Karen Bragadóttir, forstöðumaður tollasviðs hjá tollstjóraembættinu í gær, aðspurð um þessar breytingar.

Þó þessar reglur hafi verið í gildi um nokkurt skeið hafa flugfarþegar ekki orðið varir við að farið hafi verið eftir þeim í framkvæmd fyrr en nú. Ákvæðið á við um allar tollfrjálsar vörur sem seldar eru í fríhöfnum, jafnvel smávöru á borð við dagblöð.

„Það er eingöngu heimilt að selja farþegum og áhöfnum millilandafara á leið úr landi vörur úr tollfrjálsri verslun og sala skal einungis heimil gegn framvísun brottfararspjalds,“ sagði Karen en slíkt er í samræmi við 104. grein tollalaga.

„Í fyrsta lagi eru bara ákveðnar vörur sem er heimilt að selja í komuverslun þannig að farþegar sem eru að koma að utan hafa í raun ekki heimild til að fara inn í verslunina sem þú mátt versla í á leið úr landi. Einnig er verið að tryggja að þú sért sannarlega á leið úr landi, en ekki að vinna á svæðinu,“ segir Karen. Hún segir þetta tíðkast á flugvöllum víða erlendis þegar tollfrjáls varningur sé keyptur, en eigi þó ekki allsstaðar við um veitingar.

Veitingar í Leifsstöð eru þó almennt án virðisaukaskatts og því á ákvæðið einnig við þegar farþegar kaupa sér vínglas eða vatnsflösku.