Margrét Auður Agnes Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 8. nóvember 1926. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 29. mars 2012.

Útför Margrétar fór fram frá Fossvogskirkju 12. apríl 2012.

Í dag kveðum við ömmu í Ljós. Þegar við kom til ömmu rétt eftir aðgerðina datt okkur ekki í hug að þetta yrði hennar endastöð. Við höfðum svo sterka trú á því að allt myndi fara vel og við ættum mörg ár saman til viðbótar. Það má segja að við höfum verið alin upp hjá ömmu, alltaf vildum við gista hjá ömmu í Ljós og eigum við margar frábærar stundir saman. Öll kósýkvöldin sem við áttum öll með ömmu. Þá vorum við búin að hlaupa út í Vogasjoppuna með kókhylkið hennar að kaupa sódavatn, appelsín og auðvitað ís, amma bjó svo til shake í hrærivélinni.

Ferðin til Danmerkur var ógleymanleg, þá varðst þú áttræð og mamma sextug. Þegar fíflagangurinn í okkur systkininum gekk sem hæst þá fékk maður alltaf frasann frá þér: „Þið eruð alveg hoblaus.“

Ekki má gleyma öllum jólum og gamlárskvöldum sem við áttum saman í Ljósheimum, þau eru ógleymanleg. Mamma og pabbi tóku svo við þar sem fjölskyldan stækkaði og var orðið þröngt um okkur í Ljósheimunum. Eftir að þau féllu frá tókum við systkinin við til að halda uppi gömlum hefðum, þar sem við, öll fjölskyldan, hittumst og héldum upp á gleðileg jól. Þótt fjölskyldan stækkaði og stækkaði fengu allir pakka frá ömmu í Ljós.

Við munum sakna þess að hafa þig ekki lengur með okkur og geymum við allar þær góðu minningar sem við eigum með þér í hjarta okkar. Við vitum þú ert á góðum stað með mömmu, pabba og öllum öðrum ástvinum.

Ljósið flæðir enn um ásýnd þína:

yfir þínum luktu hvörmum skína

sólir þær er sálu þinni frá

sínum geislum stráðu veginn á.

Myrkur dauðans megnar ekki að hylja

mannlund þína, tryggð og fórnarvilja

– eftir því sem hryggðin harðar slær

hjarta þitt er brjóstum okkar nær.

Innstu sveiflur óskastunda þinna

ennþá má í húsi þínu finna –

þangað mun hann sækja sálarró

sá er lengst að fegurð þeirra bjó.

Börnin sem þú blessun vafðir þinni

búa þér nú stað í vitund sinni:

alla sína ævi geyma þar

auðlegðina sem þeim gefin var.

Þú ert áfram líf af okkar lífi:

líkt og morgunblær um hugann svífi

ilmi og svölun andar minning hver

– athvarfið var stórt og bjart hjá þér.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Bergþór Bergþórsson, Jón Ólafur Bergþórsson og fjölskyldur

Elsku amma í ljós, í dag kveð ég þig með sorg og söknuð í hjarta.

Það er svo margt sem ég skil ekki við dauðann og margt sem ég mun aldrei ná að skilja. Þegar þeir sem maður elskar eru teknir frá manni, það er svo margt ósagt og margt ógert.

Ég talaði við þig rétt fyrir aðgerðina þegar þú varst að hjálpa mér við ritgerð í skólanum og sagðir þú mér hversu stressuð þú værir fyrir aðgerðinni.

Ég var svo viss um að þú myndir ná þér eftir aðgerðina, sú hugsun að þú myndir ekki ná þér var mér svo fjarlægð. Lífið er of stutt þó það virðist vera heil eilífð. Fullt af minningum streymir um í huga mér sem ég mun alltaf geyma. Ég veit þú ert komin á góðan stað og margir ástvinir hafa tekið á móti þér.

Amma í ljós farin er,

í huga mínum þig ég ber,

saknaðartárin renna,

orð á vörum mínum brenna,

ég mun elska þig

um ókomna tíð.

Takk, elsku amma mín, fyrir allt sem þú hefur gefið mér og kennt mér. Sofðu rótt.

Þín

Guðrún Ósk

Bergþórsdóttir

Þá er góð kona gengin. Léttur tónn óvænt þagnaður. Aðstæður höguðu því þannig að ég hitti flesta íbúa A-íbúða í Ljósheimum í byrjun janúar, þar á meðal Margréti Kristins. Vogar og Heimar voru lífleg hverfi upp úr 60. Stillansar og annað byggingabrak. Mikil krakkahverfi. Það var blæbrigðaríkt lífið í blokkinni og margar fjölskyldurnar stórar. Hver íbúð heill heimur. Fjarlægðin er nauðsynleg í blokk en við krakkarnir völsuðum eilítið á milli á vel völdum tímum, svo sem til að sjá bestu þættina í kananum, einn þáttinn hér og annan þar. Úti höfðum við heilmikið fyrir því að lokka sæmilega andstæðinga í bardaga, sérstaklega eftir að heimilin hentu jólatrjánum á þrettándanum. Við hjuggum greinarnar af og eignuðumst þar góða lurka til að berjast með. Óskaplega hetjulega að okkur fannst. Við Laulau kannski nokkuð villtar stundum. Spennandi ærsl í ljósaskiptunum. Sá tími er reyndar löngu liðinn. Við könnumst samt alltaf hvert við annað, munum hamingju og sorgir, kunnum slitrur úr hverju lífi. Alltaf hæfilega lítið. Nauðsynleg virðingarfjarlægð en mikil hlýja. Sakna mun ég þess að hitta hana ekki lengur.

Ég votta Laulau, Gróu, Nikka og öllum nánustu samúð mína.

Hanna Steinunn

Þorleifsdóttir.