Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson
Frá Kristjáni Guðmundssyni: "Hr. innanríkisráðherra. „Stuðla að mannréttindum til hins ýtrasta."

Hr. innanríkisráðherra.

„Stuðla að mannréttindum til hins ýtrasta.“ Ummæli þessi eru innanríkisráðherra mjög töm þegar það hentar honum er hann kemur fram í sjónvarpi en hefur ekki sýnt málefnum um mannréttindi íslenskra þegna þá virðingu sem ummælin gefa tilefni til.

Ráðherrann hefur ekki sýnt það að hann meini neitt með þessum ummælum sínum með vísan til þeirra ákæruatriða um mannréttindabrot af hálfu dómara hins íslenska réttarkerfis gagnvart sumum þegnum þessa lands sem honum hefur verið falið að láta rannsaka. Honum hefur verið falið að sýna sitt rétta innræti hvað varðar rannsókn á mannréttindabrotum af hálfu dómara á Íslandi en hann hefur hunsað slíka málaleitun í átján mánuði.

Í ljósi þess tvískinnungs sem gætir í málflutningi ráðherra varðandi mannréttindi annarra þegna samfélagsins þá eru hans mannréttindi þau sem eru númer eitt og að hann njóti mannréttinda til hins ýtrasta án þess að honum komi það við þótt mannréttindi séu brotin á öðrum þegnum þessa samfélags.

Með þessu framferði ráðherrans er það bein yfirlýsing um að hann styður yfirhylmingu á mannréttindabrotum sem unnin eru af hálfu dómara hins íslenska réttarkerfis.

Því er spurt: Hvað er að marka orðagjálfur ráðherrans um að stuðla að mannréttindum til hins ýtrasta? Er þar um að ræða pólitískt lýðskrum í atkvæðaleit?

Á meðan yfirhylmingu yfir verstu ódæðisverk sem unnin eru innan nokkurs ríkis (mannréttindabrot af hálfu dómara í skjóli embættis) er framfylgt af ráðherra sem hefur yfirumsjón með dómsmálum í landinu, og hunsar óskir þegnanna um leiðréttingu á mannréttindabrotum, er það broslegt að hlusta á ráðherrann gefa sínar yfirlýsingar „um mannréttindi til hins ýtrasta“.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort örlög ráðherrans verði á svipaðan hátt og Mubaraks og Gaddafís sem báðir voru sakaðir um mannréttindabrot og yfirhylmingu yfir mannréttindabrot.

Svo virðist vera að stjórnarskrá hins íslenska lýðveldis sé aðeins fyrir ráðamenn þjóðarinnar en hinn almenni þegn sem ekki er vinur eða ættingi ráðamanns í þjóðfélaginu er réttlaus eins og tíðkaðist á fyrri öldum.

Yfirhylmingin yfir lögbrot þjóna réttargæslunnar í landinu, dómaranna, nær víða í stjórnkerfi ríkisins og má þar nefna að lögreglan neitar rannsókn á meintum brotum dómara með því að hunsa kröfur um rannsókn á lögbrotum þeirra.

Er það vilji ráðamanna þjóðarinnar og þar með innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar að þeir sem orðið hafa fyrir mannréttindabrotum og þar með þjófnaði af hálfu dómsvaldsins í landinu grípi til eigin réttlætisaðgerða? Samkvæmt lögum hefur hver þegn rétt til að verja sínar eigur þegar valdhafarnir fara ekki að lögum.

Er ítrekuð ósk um viðtal við ráðherra varðandi meint lögbrot dómara þar sem brotin eru mannréttindi á þegnum þessa lands.

KRISTJÁN GUÐMUNDSSON,

fv. skipstjóri.

Frá Kristjáni Guðmundssyni