Jóhanna Rósa Arnardóttir
Jóhanna Rósa Arnardóttir
Eftir Jóhönnu Rósu Arnardóttur: "Það er mjög mikilvægt að jöfnuður til menntunar sé virtur. Aukinn kostnaður og inntökuskilyrði búa til hindranirnar."

Ellert Ólafsson skrifar um íslenska skólakerfið í Morgunblaðinu 18. apríl 2012 þar sem hann vekur okkur til umhugsunar um skólakerfið, til hvers það er og fyrir hverja. Hann telur að grunnskólanámið sé mjög gagnlegt, framhaldsskólanámið sæmilega gagnlegt en háskólanámið sé gagnslítið. Í stað fræðilegrar stærðfræði eigi að koma stærðfræðilegar lausnir á verkefnum í raunveruleikanum. Ég staldra við þetta „í raunveruleikanum“. Sá raunveruleiki sem við búum við í dag er auðvitað svo langt frá þeim raunveruleika sem foreldrar og forfeður okkar bjuggu við. Heimssýnin er önnur, dagleg vandamál eru önnur. Hvernig skyldi þá raunveruleikinn líta út eftir nokkra áratugi? Ætli skólakerfið að byggja æsku landsins upp með fræðsluforða til að uppfylla þarfir atvinnulífsins er ekki víst að raunveruleikinn verði með þeim hætti sem hann gæti orðið. Gæti kannski orðið eitthvað miklu meira en hugmyndir okkar og reynsla ná að skynja í dag. Skólinn hlýtur að vera til að þroska hæfileika og hæfni nemenda á leið þeirra sem gildra samfélagsþegna.

Hagsmunaaðilar koma og fara en grundvallarþekking einstaklings getur breytt framtíðarsýn hans og heillar þjóðar. Þekkingin hefur þennan eiginleika að geta verið einstök og útfærsla hennar mismunandi eftir því hver á í hlut. Þegar atvinnuástandið er eins og það er nú hér á landi staldrar maður sérstaklega við þá hugsun að takast á við raunveruleg verkefni sem ekki einu sinni atvinnulífið sjálft sér fyrir sér. Á sama tíma er ljóst að völd skólakerfisins hafa aukist með aukinni áherslu stjórnvalda á menntun þegnanna. Nú stunda margfalt fleiri háskólanám en áður var og flestöll ungmenni geta sótt framhaldsskólanám óski þau eftir því og ef engar hindranir standa í vegi þeirra. Það er mjög mikilvægt að jöfnuður til menntunar sé virtur. Ungmenni eiga að eiga kost á því að sækja þá menntun sem þau vilja, inntökupróf og öll höft til að draga úr möguleikum til að sækja sér menntun á ekki við lengur. Áhugi þeirra er til staðar en haftakerfi sem komið er á í tengslum við aukinn kostnað og inntökuskilyrði búa til hindranirnar.

Skólakerfið þarf auðvitað að vera gagnlegt. Nemendur eiga að fá verkefni við hæfi og þetta þarf að gagnast þeim í lífinu. Inntökuskilyrði eru hins vegar tæki þeirra sem vilja hafa völdin til að velja þá hæfustu – en reynslan hefur verið sú að það þarf ekki að vera mjög gagnlegt tæki til þess. Þeir „hæfustu“ verða ekki endilega fyrir valinu og þar getur margt komið til. Sé skólakerfið hins vegar rekið með fé almennings er það eðlileg krafa að allur almenningur hafi jafnframt kost á því að stunda nám innan þess. Nemendur þurfa að fást við raunveruleg verkefni en ég held að óraunveruleg verkefni þurfi ekki að vera gagnslítil ef þau eru t.d. til þess gerð að þjálfa gagnrýna hugsun, finna mörk hins raunverulega, upphefja andann og kenna hefðbundin vinnubrögð. Það getur hins vegar verið skaðlegt til langs tíma að byggja þekkinguna upp einvörðungu á skammtímasjónarmiðum hagsmunaaðila.

Höfundur er félags- og menntunarfræðingur.

Höf.: Jóhönnu Rósu Arnardóttur