Rósa Kemp Þórlindsdóttir fæddist á Búðum Fáskrúðsfirði 11. febrúar 1924. Hún andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 8. mars 2012.

Foreldrar hennar voru Þórlindur Ólafsson, f. 27.5. 1887, d. 29.1. 1982, bræðslustjóri, og kona hans Jórunn Bjarnadóttir, f. 27.4. 1885, d. 18.12. 1955, kennari og húsfreyja. Systkini hennar eru Bjarni Þórlindsson, f. 1.8. 1916, d. 19.5. 2005, Kristjana Sigríður Lilja Þórlindsdóttir, f. 21.8. 1917, d. 21.6. 2002, Ólafur Ármann Þórlindsson, f. 20.12. 1919, d. 25.6. 1996, Birna Guðný Þórlindsdóttir, f. 4.12. 1927, Guðlaugur Magni Þórlindsson, f. 6.4. 1932.

Árið 1951 giftist Rósa Kemp eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóni Þorberg Eggertssyni, f. 7.10. 1922, fyrrv. skólastjóra. Börn þeirra eru: 1) Ólafur Ólafsson, f. 26.9. 1947, kvæntur Öldu Konráðsdóttur. Þau eiga þrjú börn: a) Rósa Ólafsdóttir, f. 6.12. 1970, gift Örlygi Andra Ragnarssyni, þau eiga tvö börn, Öldu Björk og Arnar Loga, b) Konráð Þór Ólafsson, f. 10.1. 1976, í sambúð með Sigríði Margréti Birkisdóttur, þau eiga tvö börn, Sóleyju Líf og Ísak Frey, c) Andri Ólafsson, f. 9.11. 1980, kvæntur Hildi Maríu Hjaltalín Jónsdóttur, þau eiga þrjú börn, Ester Ósk, Ólaf Alexander og Daníel Inga. 2) Svala Haukdal Jónsdóttir, f. 31.5. 1952, gift Kjartani Oddi Þorbergssyni, dóttir þeirra er Sif Haukdal Kjartansdóttir, f. 14.3. 1987, unnusti hennar er Tryggvi Kristmar Tryggvason. 3) Þórdís Elva Jónsdóttir, f. 9.7. 1953, í sambúð með Hafsteini Ágústssyni. Börn hennar eru þrjú: a) Linda María Lisle, f. 2.12. 1977, gift Matthew Lisle, börn þeirra eru Leo Thomas og Bo Christian, b) Kristín Lilja Åsberg, f. 24.1. 1980, í sambúð með Atla Ericsson og saman eiga þau Ove Vidar, c) Jón Henrik Åsberg, f. 30.6. 1984, í sambúð með Diana Ucar. 4) Guðríður Erna Jónsdóttir, f. 10.3. 1956, gift Ólafi Ágústi Gíslasyni. Börn þeirra eru: a) Brynja Rós Ólafsdóttir, f. 23.10. 1987, í sambúð með Andra Erni Sigurðssyni, b) Þórdís Ólafsdóttir, f. 21.10. 1989, c) Gísli Ólafsson, f. 2.10. 1994. 5) Jórunn Linda Jónsdóttir, f. 10.3. 1956, börn hennar eru: a) Aldís Buzgò, f. 2.5. 1991, í sambúð með Stefáni Georg Ármannssyni, b) Heiðdís Buzgò, f. 2.5. 1991.

Rósa Kemp ólst upp á Búðum í Fáskrúðsfirði og lauk þaðan grunnskólanámi og síðar námi við Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Fyrstu hjúskaparárin bjó hún á Fáskrúðsfirði og einnig á Suðureyri við Súgandafjörð. Síðar flutti hún til Patreksfjarðar þar sem maður hennar Jón var skólastjóri í sautján ár. Árið 1972 lá leiðin suður til Reykjavíkur. Frá 1977 hafa þau búið í Mosfellsbæ. Rósa var mjög félagslynd, virk í öllu félagsstarfi, jafnframt því að sinna stóru og gestkvæmu heimili. Hún starfaði lengst af við afgreiðslu- og þjónustusörf.

Útför Rósu var gerð frá Grensáskirkju 19. mars 2012.

Elsku mamma mín, ég mun alltaf minnast þín sem yndislegrar, hjartahlýrrar konu; uppörvndi og fullrar umhyggju og stuðnings hvenær sem á þurfti að halda. Mér eru minnisstæðir ófáir morgnar saman í eldhúsinu á Stekkum; Patreksfirði, þar sem tækifæri gafst til að vera með þér í einrúmi og um leið læra ýmislegt af þér, áður en systkini mín vöknuðu. Allar fallegar vögguvísur og önnur lög sem þú söngst fyrir okkur koma fram í hugann og þolinmæðin við að hlusta á mig fyrir próf var líka einstæð og á það við um pabba líka.

Margar fórum við gönguferðirnar, spjallað var og sungið, stundum voru tíndir steinar og blóm og þú sagðir okkur frá liðnum tímum.

Að jafnaði var mikill undirbúningur á öllum sviðum fyrir jólahátíðina og við systur hlökkuðum mikið til að fá nýja kjóla og náttföt; allt saumaðir þú sjálf, mamma mín. Sama gilti um prjónapeysur og annan fatnað á alla fjölskylduna. Við fórum líka oftar sem áður akandi í heimsókn í Dýrafjörð til afa og ömmu og varð Sæból ykkur pabba mjög kært er fram liðu stundir. Þið pabbi nutuð samvistanna þar um mörg ár í fallegu umhverfi með gróðri sem þið höfðuð komið á laggirnar, eins og fyrr við Barrholtið. Það vantaði ekkert á fagmennsku ykkar né auga fyrir náttúrufegurð, sem þið nýttuð, sérstaklega við sköpun garðanna góðu. Ferðirnar austur á firði urðu líka margar. Leiðin lá til Fáskrúðsfjarðar, að heimsækja móðurættingjana. Ferðalögin urðu oft á tíðum ævintýraleg, með misgóðri færð á fjallvegum, tjaldgistingu og fleiru skemmtilegu, ásamt viðkomu á Akureyri og öðrum góðum stöðum. Ferðanestið var alltaf einstaklega gott. Ég man vel hangikjötið, svið, harðfisk; kleinur og annað heimagert góðgæti, að ógleymdum söng og frásögnum. Þetta voru góðar stundir.

Ég man mörg veisluborðin sem þú útbjóst við ýmis tækifæri, með ljúffengum mat, ásamt tertum, kökum og brauði. Aldrei komið að tómu í eldhúsinu hjá ykkur pabba.

Það er margs að minnast, elsku mamma mín, þó að ég hafi löngum verið búsett erlendis og því ekki getað notið samvista eins og ég hefði óskað. Þess betur naut ég þeirra stunda sem buðust við heimsóknir á báða vegu. Þið pabbi eruð svo gestrisin og hafið ávallt tekið á móti mér og mínum með opnum örmum; það á líka við um síðustu jól og áramót. Þú gekkst þó ekki heil til skógar, mamma mín, en vildir sem minnst láta á því bera. Innra með mér myndaðist kvíði yfir að hverju stefndi og er ég ævinlega þakklát fyrir að hafa getað kvatt þig og fundið þessa ósegjanlegu hlýju streyma frá þér deginum fyrir andlát þitt. Ég kveð þig í hinsta sinn með miklum söknuði, elsku mamma mín, og svo gera einnig börnin mín, sem gátu ekki verið viðstödd er við kvöddum þig 19. mars.

Elsku pabbi minn, hugur minn dvelur hjá þér allar stundir, því missir þinn er stærstur eftir samveru ykkar mömmu öll þess ár. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur, pabbi minn, til að létta þér sorgina. Megi góður Guð vera með þér og gefa þér styrk og kraft til að takast á við það ber að höndum í lífinu.

Þín einlæg dóttir,

Þórdís Elva.