Kristinn Snæland
Kristinn Snæland
Eftir Kristin Snæland: "Þeir sem ekki trúa á landið, gæði þess og dugnað þjóðarinnar, berjast fyrir inngöngunni í ESB."

Þónokkur ár hafa liðið síðan ungir sjálfstæðismenn komu fram með það, og lögðu mikla áherslu á, að ríkisumsvif og fjöldi ríkisstarfsmanna væri orðinn slíkur að mikil þjóðhagsleg hagkvæmni yrði af því að taka allt ríkiskerfið til athugunar í því skyni að minnka það bákn sem búið væri að byggja upp hér á landi. Undir þessa skynsamlegu sýn ungu sjálfstæðismannanna tók fjöldi fólks úr öðrum flokkum.

Síðan þetta var hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið lengst af með öll þau völd á Íslandi sem til þess þurfti að verða við óskum hinna ungu sjálfstæðismanna. Nú eru margir þeirra orðnir þingmenn flokksins á Alþingi. Að kröfu Jóns Baldvins var fallist á að ganga inn í EES, ella væri Jón ekki til tals um að mynda ríkisstjórn. Á það var fallist, sem varð til þess að gera gersamlega útaf við hinar skynsamlegu hugmyndir ungu sjálfstæðismannanna um báknið burt.

Vegna EES hafa Íslendingar þurft að setja upp gífurlegt kerfi reglugerða og eftirlitsstofnana. Með ógæfustjórn Jóhönnu og Steingríms er enn bætt í með því að taka upp verklag í því skyni að aðlaga Ísland að regluverki ESB sem felur í sér enn meira ríkisbákn og jafnframt afsal þjóðarinnar á því að stjórna landinu í okkar þágu. Með inngöngu í ESB sem starfsmenn báknsins virðast aðhyllast og Samfylkingin berst fyrir með Vinstri grænum, hálfnauðugum, mun báknið bókstaflega springa út og þjóðin, þingið, ríkisstarfsmenn og frjálsir atvinnurekendur verða ófrjálsir menn. Sú vinna sem Össur Skarphéðinsson fer í fararbroddi fyrir er að mínu áliti landráð. Þeir sem á Alþingi eru á hverjum degi að samþykkja lög og reglugerðir ESB (að sögn Össurar) eru þá einnig að fremja landráð. Sá verknaður er sagður gerður gegn núverandi stjórnarskrá.

Enn er greinilegt að meirihluti þjóðarinnar er mótfallinn inngöngu í ESB. Svo ótrúlegt sem það er, þá hamast Össur enn við að koma niður á Alþingi með lög og reglugerðir frá ESB sem svo eru samþykktar þar. Þegar loks kemur að því að þjóðin fái að greiða atkvæði um inngönguna, þá er kosningin aðeins ráðgefandi en ekki afgerandi. Landráðaliðið á Alþingi getur þá farið með þjóðina ósátta inn í skrímslið í Brussel og landráðamenn fá væntanlega feit og þægileg embætti í stjórnstöðvum ESB.

Þeir sem ekki trúa á landið, gæði þess og dugnað þjóðarinnar, berjast fyrir inngöngunni í ESB. Hinir dugandi og bjartsýnu sem hafa trúna og vilja viðhalda sjálfstæði þjóðarinnar og frelsi munu berjast gegn Brussel-valdinu. Sjálfstæðir menn í öllum flokkum verða að standa saman gegn því óþjóðlega liði sem hefur misst trúna á landið, þjóðina og krónuna okkar.

Segjum okkur þegar í stað úr EES og Schengen og hættum þeim landráðum að daðra við ESB.

Auðæfi landsins okkar eru slík að niðurlægjandi er að hafa fulltrúa okkar sem Árna Þór Sigurðsson og Össur Skarphéðinsson sem betlandi og smjaðrandi förumenn frammi fyrir skrímslinu í Brussel.

Höfundur er rafvirkjameistari.