Lunkinn Oddur Gretarsson við það að læða boltanum framhjá Daníel Frey Andréssyni markverði FH.
Lunkinn Oddur Gretarsson við það að læða boltanum framhjá Daníel Frey Andréssyni markverði FH. — Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Höllinni Andri Yrkill Valsson sport@mbl.is Það er greinilegt að einvígi Akureyrar og FH mun verða æsispennandi allt til enda, en liðin mættust öðru sinni í gærkvöldi, nú norðan heiða.

Í Höllinni

Andri Yrkill Valsson

sport@mbl.is Það er greinilegt að einvígi Akureyrar og FH mun verða æsispennandi allt til enda, en liðin mættust öðru sinni í gærkvöldi, nú norðan heiða. Leikurinn var vægast sagt kaflaskiptur þar sem Hafnfirðingar réðu lögum og lofum í upphafi leiks, en Akureyringar sneru þá blaðinu við og uppskáru öruggan sigur, 25:18.

Baráttan var í fyrirrúmi strax frá fyrstu mínútu og ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa nokkuð eftir. Þeim fjölmörgu áhorfendum sem flestir voru á bandi Akureyrar leist þó ekki á blikuna í upphafi þar sem leikur heimamanna var gríðarlega slakur, sérstaklega sóknarlega. Vörn FH-inga var einnig mjög ákveðin með Daníel Frey Andrésson í stuði í markinu fyrir aftan hana og varð heimamönnum lítið ágengt. Þeir létu það greinilega fara í taugarnar á sér en með mikilli vinnusemi komust þeir hægt og bítandi aftur inn í leikinn, sigldu loks fram úr og voru yfir í hálfleik, 11:9, nokkuð sem enginn átti von á um miðbik hálfleiksins.

Akureyringar héldu dampi í síðari hálfleik og spiluðu af mikilli einbeitingu. Ekkert gekk upp hjá FH-ingum og virtust þeir sjálfir hissa á gangi mála. Sveinbjörn Pétursson átti stórleik í marki Akureyrar í síðari hálfleik og varð munurinn mestur tíu mörk. Heimamenn leyfðu mörgum ungum leikmönnum að spreyta sig og er það dýrmæt reynsla að taka þátt í svona stórum leik.

Tóku sig saman í andlitinu

Að venju var það þó Bjarni Fritzson sem fór fyrir sóknarleik liðsins. Hann var skiljanlega mjög sáttur í leikslok.

„Við tókum okkur bara saman í andlitinu eftir skelfilega byrjun og það skilaði sér. Það tók smá tíma hjá dómurunum að finna línuna, þetta er úrslitaeinvígi og þeir leyfa ósjálfrátt aðeins meira sem er bara flott og ekkert út á það að setja. En það skiptir miklu fyrir okkur að hafa alla þessa áhorfendur, stuðningurinn er ómetanlegur.“

Baráttan var allsráðandi í þessum leik og ekkert gefið eftir. Leikir þessara liða hafa yfirleitt verið mjög jafnir enda liðin álíka sterk. Það voru því líklega fáir sem spáðu því að annað liðið myndi tryggja sig örugglega í úrslitaeinvígið enda kom það á daginn. Akureyringar hafa hins vegar lítinn tíma til þess að fagna, en næsti leikur í einvíginu fer fram á sunnudag.

„Það er örstutt í næsta leik, ég þakka HSÍ fyrir það. En þetta eru allt ótrúlega erfiðir leikir gegn FH-ingum sem eru með frábært lið og ég reikna með að Krikinn verði alveg pakkaður á sunnudaginn. Það gerir þetta bara ennþá skemmtilegra,“ sagði Bjarni. Mikið gekk á í herbúðum Akureyrar fyrir úrslitakeppnina. Þjálfaraskipti voru tilkynnt fyrir næsta tímabil þar sem þeir Bjarni og Heimir Örn Árnason munu taka við liðinu, auk þess að leika með því áfram.

Lengi í spilunum en kom á óvart

„Þetta er mjög spennandi verkefni. Þegar þetta var nefnt við okkur varð maður pínu hissa en eftir að hafa hugsað um þetta þá ákváðum við að slá til. Svo það má segja að þetta hafi bæði verið lengi í spilunum en einnig komið á óvart,“ sagði Bjarni Fritzson, leikmaður Akureyrar.

Miðað við fyrstu tvo leiki liðanna má búast við hörkubaráttu í Kaplakrika á sunnudag. Það er þó vonandi fyrir hinn almenna áhugamann um handbolta að rimman endi í oddaleik og lengi þar með mótið, auk þess sem það kemur alls ekki til greina fyrir hvorugt liðið að fara í sumarfrí á næstunni.

Akureyri – FH 25:18

Íþróttahöllin á Akureyri, undanúrslit Íslandsmóts karla, N1-deildarinnar, 2. leikur, föstudaginn 20. apríl 2012.

Gangur leiksins : 0:1, 1:4, 2:6, 6:7, 8:9, 11:9 , 14:10, 18:12, 20:13, 23:15, 25:18 .

Mörk Akureyrar : Bjarni Fritzson 10/3, Oddur Gretarsson 7/2, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Heiðar Þór Aðalsteinsson 1, Heimir Örn Árnason 1, Bergvin Þór Gíslason 1, Daníel Einarsson 1, Geir Guðmundsson 1.

Varin skot : Sveinbjörn Pétursson 16/1 (þar af 2 til mótherja).

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk FH : Ólafur Gústafsson 7, Hjalti Þór Pálmason 4/1, Ragnar Jóhannsson 2, Örn Ingi Bjarkason 1, Atli Rúnar Steinþórsson 1, Andri Berg Haraldsson 1, Ari Magnús Þorgeirsson 1, Þorkell Magnússon 1/1.

Varin skot : Daníel Freyr Andrésson 12 (þar af 2 til mótherja), Pálmar Pétursson 1/1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Áhorfendur : 987.

Dómarar : Gísli H. Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.

* Staðan í einvíginu er jöfn 1:1.