Leikmenn danska meistaraliðsins AG Köbenhavn léku við hvern sinn fingur þegar þeir lögðu Evrópumeistara Barcelona, 29:23, að viðstöddum nærri 21.233 áhorfendum á íþróttaleikvanginum Parken í Kaupmannahöfn í gærkvöldi.

Leikmenn danska meistaraliðsins AG Köbenhavn léku við hvern sinn fingur þegar þeir lögðu Evrópumeistara Barcelona, 29:23, að viðstöddum nærri 21.233 áhorfendum á íþróttaleikvanginum Parken í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. Aldrei í sögunni hafa fleiri áhorfendur verið á leik í Meistaradeildinni í handknattleik.

Um var að ræða fyrri viðureign liðanna í 8 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. Síðari leikurinn verður eftir viku í höfuðborg Katalóníu.

AG var með fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 16:11. Liðið bætti enn við forskotið í síðari hálfleik og var lengi vel með sjö marka forskot.

Frábær varnarleikur AG með Lars Jörgensen og Réne Toft Hansen í aðalhlutverkum og Kasper Hvidt í miklu stuði í markinu lagði grunn að þessum sigri. Hvidt varði yfir 20 skot, þar af fjögur vítaköst.

Sóknarleikurinn var einnig góður hjá AG-liðinu. Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur Íslendinganna með fjögur mörk. Arnór Atlason og Ólafur Stefánsson skoruðu þrjú mörk hvor og Snorri Steinn Guðjónsson eitt mark.

Kasper Hvidt, markvörður AG, fékk rautt spjald þegar hálf önnnur mínúta var eftir fyrir að hrinda Jesper Nøddesbo, landa sínum og línumanni Barcelona. Óttuðust forráðamenn AG fyrst eftir leikinn að hann yrði í banni í næsta leik. Seint í gærkvöldi var það staðfest að hann verður gjaldgengur í síðari leikinn. iben @mbl.is