Húmor Í Banastuði eru uppvakningar, kolóðar kindur og afturgöngur.
Húmor Í Banastuði eru uppvakningar, kolóðar kindur og afturgöngur. — Ljósmynd/Júlíus Ingason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Ómar Garðarsson Vestmannaeyjar Í síðasta hefti tímaritsins Blika er grein eftir Erp Snæ Hansen, Marinó Sigursteinsson og Arnþór Garðarsson um talningu á lunda í Vestmannaeyjum.

ÚR BÆJARLÍFINU

Ómar Garðarsson

Vestmannaeyjar

Í síðasta hefti tímaritsins Blika er grein eftir Erp Snæ Hansen, Marinó Sigursteinsson og Arnþór Garðarsson um talningu á lunda í Vestmannaeyjum. Varpstofn lunda í Vestmannaeyjum var metinn með myndatöku úr lofti og með því að telja varpholur á árunum 1988 til 1993 og 2007 til 2009.

Flatarmál lundabyggða var mælt af loftmyndum og leiðrétt fyrir landslagi (halla). Fjöldi varphola er metinn 1.120.500. Árið 2010 voru 74,4% varphola í ábúð. Stærð varpstofnsins, reiknuð sem margfeldi holufjölda og ábúðarhlutfalls, er 830.100 pör. Þessi tala svarar til um fimmtungs lundastofnsins í heiminum og staðfestir að Vestmannaeyjar eru stærsta lundabyggð heims.

Hjónin Ted og Betsy Lewin komu til Vestmannaeyja í september 2009 til að vinna bók um lundann og pysjutímann og nú er bókin komin út. Ted og Betsy eru bæði listamenn og teikningar þeirra prýða bókina sem heitir Puffling Patrol þar sem saga lundans og Eyjanna er sögð í máli og myndum.

Ruth Barbara Zohlen er í samskiptum við hjónin og er bókin einmitt tileinkuð henni og manni hennar, Sigurgeiri Scheving, sem lést á síðasta ári og tvíburunum Daníel og Ernu Pálsbörnum Scheving sem koma mikið við sögu í bókinni. Bókin er mjög falleg og tekst þeim að lýsa þeirri eftirvæntingu sem fylgdi því þegar krakkar í Vestmannaeyjum eltust við pysjurnar.

Nýlega sýndi Ragnar Engilbertsson myndir sínar í Einarsstofu í anddyri Safnahússins. Ragnar, sem er fæddur 1924, starfaði sem húsamálari en ungur nam hann listmálun bæði í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Myndirnar spanna nánast allan ferilinn, frá því hann var í námi og fram á síðustu ár, teikningar og vatnslita- og olíumálverk þar sem myndefnið er oftast Vestmannaeyjar.

Leikfélag Vestmannaeyja sýnir núna söngleikinn Banastuð. Um það segir: Sagan sem slík er álíka vitlaus og gera má ráð fyrir enda fjallar hún um uppvakninga, kolóðar kindur og afturgöngur. Inn í þetta fléttast blóðug barátta upp á líf og dauða og auðvitað smávegis lókal húmor. Leikstjórinn kemst líklega best að orði í leikskrá söngleiksins þegar hann segir að sagan sé fullkomlega ótrúverðug, stórkostlega ýkt og húmorinn ansi vafasamur oft á tíðum.