Verðbólga Það eru gömul sannindi og ný að þegar krónan veikist, þá hækkar vöruverð á innfluttum varningi og verðbólga eykst að sama skapi.
Verðbólga Það eru gömul sannindi og ný að þegar krónan veikist, þá hækkar vöruverð á innfluttum varningi og verðbólga eykst að sama skapi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gangi 0,5% verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka eftir fyrir aprílmánuð mun 12 mánaða verðbólga minnka úr 6,4% í 6,1%, og raunar gerir hún ráð fyrir áframhaldandi hægri hjöðnun næstu misseri eftir verðbólguskot sem staðið hefur linnulítið frá upphafi árs...

Gangi 0,5% verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka eftir fyrir aprílmánuð mun 12 mánaða verðbólga minnka úr 6,4% í 6,1%, og raunar gerir hún ráð fyrir áframhaldandi hægri hjöðnun næstu misseri eftir verðbólguskot sem staðið hefur linnulítið frá upphafi árs 2011. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs næsta föstudag hinn 27. apríl.

Þetta kom fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í gærmorgun.

Greining Íslandsbanka telur að ferða- og flutningskostnaður aukist talsvert í aprílmánuði líkt og undanfarna mánuði, ekki síst vegna áframhaldandi hækkunar á eldsneyti. Auk þess koma árstíðabundnar hækkanir gjarnan fram í reiðhjólum, sumarhjólbörðum og fleiri ferðatengdum liðum í mánuðinum.

Gerir Greiningin ráð fyrir að liðurinn vegi til 0,15% hækkunar VNV í apríl. Þá hefur matvara hækkað nokkuð upp á síðkastið og gert er ráð fyrir 0,1% hækkun VNV í apríl vegna þessa. Föt og skór leggja svo til tæp 0,1% í hækkun VNV að mati Greiningarinnar.

Veiking eða styrking krónunnar hefur mikið að segja

Loks koma almenn áhrif veikingar krónu á síðustu mánuðum og launahækkana í febrúar og mars fram í hækkun ýmissa liða sem samanlagt vega til ríflega 0,15% hækkunar VNV í spánni.

„Hins vegar teljum við að húsnæðisliður vísitölunnar muni lítið hækka í apríl, enda vísbendingar um að húsnæðisverð hafi staðið í stað undanfarið,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Á seinni hluta ársins spáir Greining Íslandsbanka töluvert hægari hækkun VNV. Það er þó háð því að krónan gefi ekki frekar eftir. Spá þeirra gerir raunar ráð fyrir lítilsháttar styrkingu krónu þegar líður á árið, en óhagstæðari þróun krónunnar á komandi misserum myndi breyta verðbólguhorfum umtalsvert til verri vegar.

„Við spáum því að verðbólga mælist 4,5% í lok yfirstandandi árs og að í desember 2013 verði verðbólgan 3,6%. 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans næst þó vart fyrr en á seinni hluta ársins 2014,“ segir í Morgunkorninu.